WTA tekur undir með Williams

Serena Williams lætur dómarann Carlos Ramos heyra það eftir tapið …
Serena Williams lætur dómarann Carlos Ramos heyra það eftir tapið í gærkvöld. AFP

Framkvæmdastjóri tennissambands kvenna, WTA, tekur undir ásakanir Serenu Williams um að kynjamisrétti hafi einkennt ákvarðanatöku dómara úrslitaleiksins á US Open.

Williams tapaði úrslitaleiknum fyrir hinni japönsku Naomi Osaka. Eftir mótið sakaði Williams dómarann Carlos Ramos um kynjamisrétti en Ramos dæmdi meðal annars af henni leik fyrir harkaleg mótmæli, og breytti þar með stöðunni í leiknum úr 4:3 í 5:3 fyrir Osaka. Williams hafði þá sagt Ramos vera lygara og þjóf, en hann dæmdi af henni stig fyrir að kasta frá sér tennisspaða í bræði sinni, eftir að hún hafði fyrr í leiknum fengið liðsinni þjálfara í miðjum leik að mati dómarans, sem er bannað í úrslitaleik á risamóti.

„Hann hefur aldrei dæmt leik af karlmanni fyrir að kalla dómarann þjóf. En ég hef séð karlmenn fá að kalla dómarann ýmsum öðrum nöfnum,“ sagði Williams eftir leikinn. Nú hefur Steve Simon, framkvæmdastjóri WTA, tekið undir með henni.

„WTA telur að það eigi ekki að vera neinn kynbundinn munur á þolmörkum gagnvart því þegar karlmenn eða konur sýna tilfnningar sínar í keppni. Við teljum að þetta hafi ekki verið raunin í gærkvöld,“ sagði í yfirlýsingu frá Simon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert