Tveir á HM í júdói en einn meiddist

Egill Blöndal er á leið á HM í Baku. Hér ...
Egill Blöndal er á leið á HM í Baku. Hér er hann með Önnu Soffíu Víkingsdóttur en engin íslensk kona keppir á HM í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland mun eiga tvo fulltrúa á heimsmeistaramótinu í júdói sem haldið verður í Baku í Aserbaídsjan dagana 20.-27. september.

Egill Blöndal mun keppa í -90 kg flokki og Sveinbjörn Iura í -81 kg flokki. Með þeim í för verður Jón Þór Þórarinsson landsliðsþjálfari.

Logi Haraldsson bjó sig einnig undir að keppa á mótinu en meiddist í æfingabúðum í Hollandi fyrir tveimur vikum og náði ekki að jafna sig í tæka tíð. Ólympíufarinn Þormóður Jónsson er ekki heldur með vegna anna í vinnu.

Gríðarlega góð þátttaka er á mótinu en keppendur eru 810 talsins frá 131 þjóð; 497 karlar og 313 konur. Egill keppir til að mynda í 84 manna flokki og í þyngdarflokki Sveinbjörns eru 70 skráðir keppendur.

Sveinbjörn keppir 23. september og Egill degi síðar.

mbl.is