Nýtt heimsmet og stórtíðindi í Berlín

Eliud Kipchoge kemur í mark á nýju heimsmeti í morgun.
Eliud Kipchoge kemur í mark á nýju heimsmeti í morgun. AFP

Það dró heldur betur til tíðinda í Berlínar-maraþoninu í dag, bæði í karla- og kvennaflokki.  Eliud Kipchoge frá Kenía setti nýtt heimsmet í maraþonhlaupi karla er hann kom í mark á tímanum 2:01,39 klukkustundum. Landi hans, Dennis Kimetto, átti gamla metið, 2:02,57, sem sett var í Berlín fyrir fjórum árum.

Hinn 33 ára gamli Kipchoge hafði mikla yfirburði í hlaupinu og sérstaklega þegar á leið. Hann hljóp fyrstu fimm kílómetrana á 14,24 mínútum, 10 kílómetrana á 29,21 mínútu en eftir 25 kílómetra þá heltust aðrir keppendur úr lestinni á meðan Kipchoge gaf í. Tími hans eftir 35 kílómetra var 1:41 klukkustund og hann kom sem áður segir í mark á nýju heimsmeti.

Ekki nóg með það að Kipchoge hafi bætt metið um eina mínútu og 18 sekúndur, heldur er þetta mesta bæting á heimsmetinu frá árinu 1967. Þá bætti Derek Clayton metið um 2:23 mínútur, en heimsmetið sem hann setti þá var 2:09,36 klukkustundir. Í öðru sæti í hlaupinu í dag var Amos Kipruto á tímanum 2:06,23 klukkustundum.

Í kvennaflokki var ekki síður söguleg stund þegar Gladys Cherono, einnig frá Kenía, kom fyrst í mark á 2:18,11 klukkustundum og setti um leið nýtt brautarmet í Berlín. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn í sögunni sem þrjár konur hlaupa undir 2:19 klukkustundum í sama maraþoninu. Í öðru sæti var Ruti Aga á 2:18,34 klukkustundum og Tirunesh Dibaba, margfaldur Ólympíu- og heimsmeistari, var þriðja á 2:18,55 klukkustundum.

Sigurvegararnir í karla- og kvennaflokki. Eliud Kipchoge og Gladys Cherono.
Sigurvegararnir í karla- og kvennaflokki. Eliud Kipchoge og Gladys Cherono. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert