Þrenn bronsverðlaun til Íslands á HM öldunga

Jón Bjarni Bragason keppti í kastþraut.
Jón Bjarni Bragason keppti í kastþraut. Ljósmynd/FRÍ

Heimsmeistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum lauk á Spáni í dag en þar áttu Íslendingar fjóra fulltrúa og fara þrír þeirra heim með brons um hálsinn. 

Stefán Hall­gríms­son fékk brons í tugþraut í flokki 70-74 ára. Stefán hef­ur unnið til fjölda verðlauna og varð hann heims­meist­ari í tugþraut í flokki 60-64 ára árið 2009. Einnig hef­ur hann orðið Evr­ópu­meist­ari nokkr­um sinn­um og þá á Stefán Evr­ópu­metið í grein­inni hjá kepp­end­um 55 ára og eldri.

Kristján Gissurarson varð þriðji og fékk brons í stangarstökki í flokki 65-69 ára. Kristján stökk hæst 3,30 metra. Wolfgang Ritte frá Þýskalandi sigraði með stökk upp á 3,90 metra.

Jón Bjarni Bragason keppti í kastþraut í flokki 45-49 ára og hlaut bronsverðlaun. Kastþraut samanstendur af fimm kastgreinum. Sleggjukasti, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og lóðakasti. Hann byrjaði á að kasta sleggjunni 46,04 metra sem var næstlengsta kastið. Hann kastaði kúlunni 12,64 metra og kringlunni 41,56 metra sem bæði voru fimmtu lengstu köstin. Hann kastaði næstlengst í spjótkasti, 44,91 metra, og í lóðakasti kastaði Jón Bjarni 14,25 metra sem skilaði honum bronsi í samanlögðu. Hann hlaut alls 3.924 stig.

Fríða Rún Þórðardóttir keppti í þremur greinum og náði best fimmta sæti í 8 km víðavangshlaupi, en tími hennar þar var 32:59 mínútur. Í 10 km götuhlaupi náði Fríða 13. sæti af 42 keppendum sem kláruðu hlaupið, en tími hennar var 42:04 mínútur. Í 5.000 metra hlaupi varð hún svo 12. í heildina á 20:04,34 mínútum.

Frjálsíþróttasamband Íslands greindi frá, hér og hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert