Ágúst tók silfrið í Varsjá

Ágúst Kristinn Eðvarðsson sáttur við silfurverðlaun sín.
Ágúst Kristinn Eðvarðsson sáttur við silfurverðlaun sín. Ljósmynd/Taekwondosamband Íslands

Síðastliðna helgi kepptu sex íslenskir keppendur á Opna pólska mótinu í taekwondo. Mótið er svokallað G-1 mót en það telur til stiga á heimslistanum og fór fram í Varsjá. Ágúst Kristinn Eðvarðsson vann silfurverðlaun í -48 kg flokki. 

Ágúst Kristinn byrjaði sunnudaginn snemma og keppti í fyrsta bardaga í -48 kg flokki. Hann vann þá Spánverja, 8:3. Ágúst fór illa með finnskan andstæðing sinn í átta liða úrslitum og vann 20:0. Ágúst gerði svo gott betur og vann ítalaskan andstæðing 23:3 í undanúrslitum. Hann þurfti hins vegar að sætta sig við 27:16-tap fyrir Ísraela í úrslitabardaganum og silfurverðlaun. 

Á laugardeginum keppti Kristmundur Gíslason frá Keflavík í -80 kg flokki á móti sterkum heimamanni og eftir erfiða baráttu sigraði heimamaðurinn naumlega 6:6. Kristmundur sótti sér þarna inn góða reynslu á móti sterkum keppanda.

Seinna um kvöldið hófst svo keppni í -68 kg unglingaflokki þar sem Ísland átti þrjá fulltrúa. Andri Sævar Arnarsson frá Keflavík byrjaði kvöldið á að leggja sterkan heimamann 6:4 eftir spennandi lokasekúndur, næst keppti Andri Sævar í 16-liða úrslitum á móti Svía sem komst meðal annars í 8-liða úrslit á heimsmeistaramótinu fyrr á árinu, Andri Sævar þurfti að sætta sig við 15:4 tap á móti sterkum og reynslumeiri andstæðingi. 

Eyþór Jónsson frá Keflavík keppti á móti Úkraínumanni í fyrstu umferð og vann örugglega, 13:5. Í næstu umferð lagði Eyþór heimamann, 12:7. Hann varð hins vegar að gera sér að góðu tap í átta liða úrslitum á móti Breta sem stóð uppi sem sigurvegari í flokknum. 

Leo Speight, sem er búinn að vera gríðarlega öflugur á þessu ári keppti fyrir Taekwondo-félagið Björk. Hann byrjaði kvöldið vel og vann reynslumikinn Ítala, 20:7. Hann tapaði hins vegar í næstu umferð á móti sama Svía og Andri Sævar beið lægri hlut fyrir. Ísland vann því fjóra af átta bardögum flokksins og Eyþór og Leo enduðu í 5.-8. sæti í -68 kg flokknum. 

Daníel Arnar Ragnarsson frá Keflavík tapaði fyrir Austurríkismanni í fyrstu umferð í -63 kg flokknum, 11:8, eftir æsispennandi baráttu á lokasekúndunum. 

mbl.is