„Hjálpaði mér að tala um misnotkunina“

Simone Biles vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó …
Simone Biles vann til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. AFP

Simone Biles, ein sigursælasta fimleikakona sögunnar, var kynferðislega misnotuð af fyrrverandi lækni bandaríska landsliðsins í fimleikum, Larry Nassar. Nassar var dæmdur í 175 ára fangelsi í janúar á þessu ári en alls höfðu 160 konur sakað hann um kynferðislega misnotkun en Biles var ein af þeim fyrstu sem steig fram til þess að segja sögu sína af samskiptum sínum við lækninn.

„Það var mjög erfitt fyrir mig að segja frá því sem hafði gerst,“ sagði Biles í samtali við BBC. „Ég leit hins vegar þannig á málið að ef ég myndi stíga fram og segja mína sögu þá myndu kannski aðrar konur fá kjark til þess að gera slíkt hið sama. Það eru margar ungar stelpur sem líta upp til mín og ef þær sjá að ég gat þetta, geta þær það vonandi líka einn daginn.“

„Það hjálpaði mér mikið að ræða um misnotkunina á sínum tíma og mér fannst ég einhvern veginn stærri manneskja fyrir vikið. Þetta hjálpaði mér að skila skömminni þangað sem hún á heima,“ sagði Biles en hún vann fern gullverðlaun og ein bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert