Blandaða liðið flaug í úrslit á EM

Blandaða unglingasveitin bíður þess að komast út á keppnisgólfið í …
Blandaða unglingasveitin bíður þess að komast út á keppnisgólfið í kvöld. Sveitin komst örugglega áfram í úrslit eftir að hafa hafnað í fjórða sæti í undankeppninni. Ljósmynd/Kristinn Arason

Blandað unglingalandslið Íslands hafnaði í 4. sæti í undankeppni Evrópumeistaramótsins í hópfimleikum í íþróttahöllinni í Odivelas í úthverfi Lissabon en keppninni var að ljúka. Hópurinn mun þar með taka þátt í úrslitum sem fram fara síðdegis á föstudaginn en sex af þeim tíu sveitum sem tóku þátt í undankeppninni unnu sér sæti í úrslitum.

Danir  voru efstir  í undankeppninni. Þeir fengu samtals 53.400 stig. Svíar voru í öðru sæti með 52.300 en sveitir þessara tveggja landa voru með talsverða sérstöðu í undankeppninni.  Bretar voru í þriðja sæti með 48.900 stig. Íslenska sveitin fékk samtals 48.150. Noregur varð í fimmta sæti og Hollendingar í sjötta. Ítalir, Portúgalir, Þjóðverjar og Aserar sátu eftir með sárt ennið.

Íslenska sveitin byrjaði keppnina í dag  á dýnustökkum og fékk 15.900 stig. Tvö föll, svokölluð, voru í stökkunum átján sem skiptust í þrjár umferðir. Fall er að þegar keppandi fellur í afstökki og nær ekki að setja annan fótinn aftur fyrir sig til að koma í veg fyrir að falla á rassinn.

Því næst kom að trampólínstökkum. Þar gekk allt að óskum í átján stökkum svo að hagur liðsins vænkaðist verulega.  Einkunnin var 15.950.

Þriðja og síðasta grein kvöldsins var dansinn. Fyrir hann var nokkuð ljóst að annað hvort þriðja eða fjórða sætið kæmi í hlut íslenska liðsins, gengi allt að óskum. Dansinn gekk vel þótt eflaust hafi ekki öllum trompunum verið spilað út að þessu sinni. Niðurstaðan 16.300 sem færði íslenska liðið í fjórða sætið.

Heildarútkoman var því góð hjá hópnum sem getur nú farið að búa sig undir hörkukeppni á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert