Fagnar aftur á McDonalds

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á verðlaunapalli eftir að hafa unnið gullverðlaun ...
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á verðlaunapalli eftir að hafa unnið gullverðlaun í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikum ungmenna. Ljósmynd/ÍSÍ

„Ég er bara 16 ára og á nóg eftir,“ segir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, nýjasta stjarna íslenskra frjálsíþrótta, en hún varð í gær ólympíumeistari ungmenna í 200 metra hlaupi í Buenos Aires í Argentínu.

Guðbjörg Jóna hefur bætt Íslandsmetið í 200 metra hlaupi þrisvar sinnum í ár en met Guðrúnar Arnardóttur hafði staðið í 21 ár þegar Guðbjörg Jóna sló það fyrst í sumar. Auk ólympíumeistaratitilsins varð Guðbjörg Jóna Evrópumeistari 17 ára og yngri í 100 metra hlaupi í sumar og vann brons í 200 metra hlaupi, auk þess að vinna gullverðlaun á NM ungmenna og Meistaramóti Íslands. Þó að Guðbjörg Jóna sé enn aðeins 16 ára er mögulega ekki ýkjalangt í fyrsta stórmót hennar í flokki fullorðinna:

„Ég bætti mig það mikið í sumar að ef ég held svona áfram gæti ég alveg náð inn á HM fullorðinna á næsta ári, en ég er ekki að hugsa um það alveg strax. Ég hugsa frekar um mótin sem eru fyrir mína aldursflokka. Það er ekki þannig að ég ætti einhverja möguleika á að gera einhverja hluti á fullorðinsmótunum, en vissulega væri gaman að komast inn á þau og það er alveg mögulegt,“ segir Guðbjörg Jóna við mbl.is.

Guðbjörg Jóna er enn stödd í Buenos Aires þar sem lokahátíð leikanna fer fram á morgun, og stefndi á McDonalds þegar mbl.is ræddi við hana, til að fagna gullverðlaununum með mat sem íþróttafólk í fremstu röð eins og hún neytir líklega ekki alla jafna:

„Ég ætla að fara í dag. Ég fór líka á McDonalds eftir EM. Maður verður alltaf að fagna þessu með einni ferð, og fá sér McNuggets og McFlurry,“ segir Guðbjörg Jóna létt í bragði. Hún er á öðru ári í Menntaskólanum við Hamrahlíð og varð að biðja um leyfi frá náminu til að komast á leikana í Buenos Aires:

„MH var mjög hjálplegur varðandi þetta og gaf mér frí. Ég þurfti bara að læra aðeins á meðan ég væri hérna úti, hefði kannski getað verið duglegri við það en það er í lagi,“ segir Guðbjörg Jóna sem fær nú afar verðskuldaða tveggja vikna hvíld frá æfingum áður en undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil hefst.

Ítarlega er rætt við Guðbjörgu Jónu í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is