Frábær dans og annað sæti

Stúlknalandsliðið fagnar í keppninni í kvöld. Sveitin hafnaði í öðru …
Stúlknalandsliðið fagnar í keppninni í kvöld. Sveitin hafnaði í öðru sæti í undankeppninni. Ljósmynd/Kristinn Arason

Stúlknalandsliðið komst í kvöld í úrslit á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Portúgal en undankeppninni var að ljúka. Liðið hafnaði í öðru sæti með 51.200 stig. Þar með er ljóst að stúlkurnar keppa til úrslita á mótinu á föstudagskvöldið ásamt fimm öðrum sveitum en Ísland vann stúlknaflokkinn á síðasta Evrópumóti. Frábær dans kórónaði frábært kvöld.

Alls tóku tíu sveitir frá jafnmörgum löndum þátt í undankeppninni sem fór fram fyrir fullu húsi áhorfenda og rífandi góðri stemningu í keppnishöllinni í Odivela, í úthverfi Lissabon.

Svíar voru efstir í undankeppninni, fengu 53.200 stig. Danir voru í þriðja sæti en einnig komust Finnar og Norðmenn áfram og ljóst að mikill Norðurlandaslagur verður í úrslitum.

Stúlknasveitin fékk 15.500 stig fyrir stökk sín á fíberdýnu í fyrstu umferð sem var vel viðunandi þrátt fyrir nokkra hnökra. Síður gekk í annarri umferð þegar sveitin var í trampolínstökkum. Niðurstaðan var 14.850 stig og ljóst að í þeirri grein er möguleiki til framfara í úrslitum á föstudag.

Lokaatriðið, dansinn, gekk afar vel, svo vel að sveitin fékk hæstu einkunn allra liða í undankeppninni, 20.880. Stúlkurnar voru öruggar í öllu og tryggðu sér þar með annað sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert