Frábærar æfingar og sveitin sveif áfram

Blönduð sveit fullorðinna sýndi glæsileg tilþrif í undankeppni EM í …
Blönduð sveit fullorðinna sýndi glæsileg tilþrif í undankeppni EM í hópfimleikum í dag. Ljósmynd/Kristinn Arason

Blönduð sveit fullorðinna innsiglaði sæti í úrslitum á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum með frábærri frammistöðu í undankeppninni í dag. Sveitin fékk samtals 53.100 stig fyrir þrautirnar þrjár sem hún þurfti að leysa af hendi og hafnaði í 3. sæti af 11. Sex efstu liðin keppa til úrslita á laugardaginn og er óhætt að segja að íslenska sveitin hafi gefið tóninn fyrir það sem koma skal þá.

Svíar voru efstir að stigum með 54.000 og Danir í öðru sæti 53.850. Litlu munaði á þremur efstu sveitunum.

Sveitin hóf undankeppnina á dansi sem á gekk afar vel hjá hópnum sem var taktfastur og keppendur glaðir í bragði sem ekki þykir skemma fyrir enda hefur útgeislun keppenda jákvæð áhrif á dómara og áhorfendur sem fjölmenntu í keppnishöllina.  Nokkurn tíma tók að bíða eftir niðurstöðu dómaranna en þegar hún lá fyrir var ljóst að sveitin fékk 18.250 stig. Góð byrjun á keppninni en alls voru ellefu sveitir sem reyndu með sér og fóru sex þeirra áfram í úrslit sem fram fara á laugardaginn.

Þess má geta að Svíar, sem alltaf eru með afbragðs dansatriði fengu 18.900 stig fyrir sína frammistöðu í undankeppninni.

Í annarri umferð var komið að dýnustökkum. Skemmst er frá því að segja að öll stökkin átján tókust afar vel. Þau voru kraftmikil og fjölbreytt þar sem keppendur nutu sín í botn. Enda var glatt á hjalla hjá keppendunum þegar þeir hlupu út af keppnisvellinum á eftir.  Niðurstaða dómaranna var heldur ekki af verri endanum, 17.750 stig sem sló m.a. við frændum okkar Dönum sem þóttu fara með himinskautum í stökkum sínum og hlutu að launum 17.600 stig.

Í lokaumferðinni var komið að átján trampolínstökkum í þremur umferðum. Sautján af stökkunum tókust af vel en eitt fall var í annarri umferð sem verður teljast afar gott þegar upp er staðið í 36 stökkum í keppninnar að vera aðeins með eitt fall í undankeppni.  Þegar dæmið var uppgert fékk íslenska liðið 17.100 stig fyrir trampolinstökkin sem var með því allra besta sem liðin náðu í keppninni.

Stórbrotin frammistaða í heild hjá hópnum sem nú getur safnað kröftum fyrir úrslitin sem fram fara um hádegisbil á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert