Þetta var geggjað

Frá dansi blandaða liðsins í undankeppninni á EM í dag. …
Frá dansi blandaða liðsins í undankeppninni á EM í dag. Anna María Steingrímsdóttir er fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Þetta var geggjað því það gekk alveg hreint ótrúlega vel hjá okkur,“ sagði Anna María Steingrímsdóttir einn liðsmaður blönduðu sveitar fullorðinna sem tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins í hópfimleikum í dag með framúrskarandi frammistöðu. Sveitin hafnaði í þriðja sæti en afar litlu munaði á íslensku sveitinni og þeirri sænsku sem varð efst.

„Við getum bætt eitt og annað til dæmis í dansinum fyrir úrslitin. Það er fínt að hafa eitthvað til að bæta, vera ekki með allt fullkomið í undankeppninni,“ sagði Anna María þegar mbl.is hitti hana að máli strax að lokinni keppninni í íþróttahöllinni í Odivela í úthverfi Lissabon í Portúgal.

„Ég er mjög stolt af hópnum að hafa staðið sig svona vel, ekki síst í stökkunum þar sem við vorum aðeins með eitt fall. Það er góður andi í hópnum hjá okkur og við stefnum á að gera enn betur í úrslitunum,“ sagði Anna María Steingrímsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert