Stúlkurnar hlutu brons á EM

Stúlknalandsliðið hlaut bronsverðlaun á EM í hópfimleikum í kvöld.
Stúlknalandsliðið hlaut bronsverðlaun á EM í hópfimleikum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Arason

Stúlknalandsliðið í hópfimleikum hlaut bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Portúgal í kvöld eftir harða keppni við Svía og Dani sem hrepptu tvö efstu sætin. Íslenska liðið fékk 52.550 stig.

Svíar fóru hreinlega á kostum í keppninni og fengu samtals 55.000 stig og Danir 53.075 stig. Finnar  voru í fjórða sæti, nokkuð á eftir íslenska liðinu. Norðmenn  höfnuðu í fimmta sæti og Bretar voru sjöttu.

Fyrsta grein stúlknalandsliðsins í úrslitunum í gær var dansinn. Hann tókst vel en þó voru í honum hnökrar svo einkunnin varð 20.000 sem var nokkru lægra en í undankeppninni, 20.800. Svíar fóru á kostum í dansinum og hlutu 21.250, Danir 21.100 og Finnar skutu meira að segja  Íslendingum einnig ref fyrir rass en fengu 20.550 stig.

Hinsvegar tókst íslensku stúlkunum afar vel upp í dýnustökkum í annarri umferð og fengu að launum frábæra einkunn, 16.550 sem var mun hærra en í undankeppninni.  Eins gerðu þær mun betur í trampolínstökkunum í úrslitunum í kvöld en í undankeppninni, eða 15.900 stig.

Þótt íslensku stúlkurnar gerðu eins vel og þær gátu þá voru Svíarnir með öflugasta liðið og Danir voru einnig með frábæra sveit sem bætti sig sérstaklega mikið í dansinum frá undankeppninni.

mbl.is