Átta Íslendingar keppa á HM í Doha

Valgarð Reinhardsson
Valgarð Reinhardsson mbl.us/Golli

Heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum hefst í Doha í Katar á morgun, fimmtudag, en þar verða átta Íslendingar á meðal þátttakenda. Mótið verður sett klukkan 8.30 að morgni að staðartíma, eða kl. 5.30 að íslenskum tíma.

Undankeppnin í karlaflokki hefst á morgun, strax að lokinni opnunarhátíðinni. Þrír íslenskir karlar taka þátt, þeir Eyþór Örn Baldursson (21 árs), Valgarð Reinharðsson (22 ára) úr Gerplu og Jón Sigurður Gunnarsson (26 ára) úr Ármanni. Þeir keppa á morgun, fimmtudag. Þjálfari þeirra er Róbert Kristmannsson og dómarinn Anton Heiðar Þórólfsson er með í för. Undankeppni karla stendur fram á föstudagskvöld.

Konurnar keppa síðan á laugardaginn, þegar undankeppni í kvennaflokki hefst, og þar mæta til leiks fimm frá Íslandi. Það eru Agnes Suto-Tuuha (26 ára), Sonja Margrét Ólafsdóttir (16 ára) og Thelma Aðalsteinsdóttir (17 ára) úr Gerplu, Dominiqua Alma Belányi (26 ára) og Margrét Lea Kristinsdóttir (16 ára) úr Björk.

Hildur Ketilsdóttir og Þorbjörg Gísladóttir eru landsliðsþjálfarar kvenna og Hlín Bjarnadóttir er dómari.

Undankeppninni lýkur á sunnudagskvöld en úrslitakeppni fer af stað á mánudaginn, 29. október, og stendur til laugardagskvöldsins 3. nóvember þegar mótinu lýkur.

Keppnin fer fram í Aspire Dome, stærstu íþróttahöll heims, en það er fjölnota bygging þar sem keppni getur farið fram í þrettán mismunandi íþróttagreinum á sama tíma.

Þetta er í fyrsta skipti sem heimsmeistaramótið í áhaldafimleikum er haldið í Miðausturlöndum. Það fer nú fram í 48. skipti en það var fyrst haldið í Antwerpen í Belgíu árið 1903. Fyrir liggur að þrjú næstu mót fara fram í Evrópu, í Stuttgart 2019, í Kaupmannahöfn 2021 og í Liverpool 2022.

Dominiqua Alma Belányi.
Dominiqua Alma Belányi. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert