Hvert skila stökkin Valgarð í Doha?

Valgarð Reinhardsson
Valgarð Reinhardsson mbl.is/Golli

Eftir að hafa fyrstur Íslendinga komist í úrslit í stökki á EM í Glasgow í ágúst verður fimleikakappinn Valgarð Reinhardsson aftur á ferðinni á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar í dag.

Þeir Valgarð, Eyþór Örn Baldursson og Jón Sigurður Gunnarsson verða fulltrúar Íslands á mótinu í keppni karla en keppni kvenna hefst um helgina.

Guðmundur Þór Brynjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, segir raunhæft að Valgarð geti náð í hóp 20 efstu í stökki í dag. Aðeins átta efstu á hverju áhaldi fyrir sig komast í úrslit. Valgarð kemur til með að framkvæma sömu stökk og á EM – stökk sem þessi 22 ára gamli Íslandsmeistari er svo gott sem búinn að fullkomna. Til samanburðar má nefna að einkunnin sem Valgarð fékk á EM hefði dugað til 14. sætis í stökki á HM í Montreal í Kanada í fyrra.

Væri flott að vera á topp 20

„Hann fer ekkert í úrslit á HM en það er hægt að vonast til þess að hann nái inn í hóp 20 efstu eða eitthvað slíkt. Það yrði rosalega flottur árangur að vera inni á topp 20 í stökki. Norma [Dögg Róbertsdóttir] náði því einu sinni. Þetta er væntanlega eitthvað sem hann stefnir á,“ segir Guðmundur. Næsta ár fari svo væntanlega í það hjá Valgarð að bæta sig til að geta mögulega náð svo góðri einkunn í fjölþraut á HM eftir ár að hann komist inn á Ólympíuleikana í Tókíó.

„Það sem Valgarð þarf til dæmis að vinna í eftir þessi tvö mót [EM og HM] er að auka erfiðleikastigið í sínum stökkum, því hann kemst ekki mikið hærra í einkunn með þessi stökk sem hann er að notast við núna. Ég veit að hann er að vinna í þessu,“ segir Guðmundur og efast ekki um að það geti Valgarð gert. Þessi 22 ára gamli kappi hefur æft með Alta í Kanada síðustu misseri en er úr Gerplu.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert