Þarf að muna að drekka mikið

„Undirbúningurinn hefur verið mjög langur, mörg mót, og maður er orðinn smá þreyttur í líkamanum en bara spenntur fyrir því að keppa,“ segir Valgarð Reinhardsson, einn þriggja íslenskra fimleikamanna sem keppa á HM í áhaldafimleikum í Doha í dag.

Valgarð skráði sig í sögubækurnar á EM í Glasgow í ágúst þegar hann varð fyrstur Íslendinga til að komast í úrslit í stökki á EM. Þeir Valgarð, Eyþór Örn Baldursson og Jón Sigurður Gunnarsson verða allir á ferðinni í Doha í dag en keppni kvenna hefst um helgina.

Í viðtali við Fimleikasambandið kveðst Valgarð njóta þess að vera mættur í keppni við þá bestu í heiminum í dag: „Það er bara geðveikt. En við erum í holli þar sem eru ekkert allt of „stór“ lönd svo að eftir að við keppum fáum við kannski að horfa aðeins á keppendur frá stærri löndunum.“

Valgarð segir það hafa verið frekar erfitt að eiga við hitann í Katar en þetta er í fyrsta sinn sem HM fer fram í Mið-Austurlöndum: „Maður þarf bara að muna að drekka nógu mikið af vatni og Gatorade til að halda sér í góðu standi. Það tók kannski tvo eða þrjá daga að venjast þessu,“ segir Valgarð, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert