Lára, Jóhannes og Örn sigruðu

Verðlaunahafar í 1. og 2. flokki kvenna.
Verðlaunahafar í 1. og 2. flokki kvenna.

Borðtennisdeild KR hélt styrkleikamót í Íþróttahúsi Hagaskóla sunnudaginn 4. nóvember. Keppt var um hvert sæti í flokkunum og gátu þeir sem töpuðu í 1. umferð mest náð 5. sæti. Keppendur komu frá BH, HK, ÍFR, KR og Víkingi.

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH, sigraði í sameiginlegum flokki mfl. og 1. fl. karla, Lára Ívarsdóttir, KR, vann í sameiginlegum flokki 1. og 2. fl. kvenna og Örn Þórðarson, HK, í 2. flokki karla.

Í meistara- og 1. flokki karla urðu óvænt úrslit í 1. umferð þegar Magnús Gauti Úlfarsson, BH, tapaði 1-3 fyrir Belganum Faber Pennings, sem keppir fyrir KR. Faber lék svo til úrslita við Jóhannes, og sigraði Jóhannes 3-1 (13-15, 11-7, 11-4, 11-3). Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, BH, varð í 3. sæti eftir 3-1 sigur á Óskari Agnarssyni, HK, í leik um bronsið.

Verðlaunahafar í 2. flokki karla.
Verðlaunahafar í 2. flokki karla.

Í 1. og 2. flokki kvenna sigraði Lára Ívarsdóttir, KR, nokkuð óvænt en hún var 5. stigahæsti leikmaðurinn og enn í 2. flokki. Hún vann Agnesi Brynjarsdóttur úr Víkingi 3-0 (13-11, 11-7, 11-7) í úrslitaleik. Hildur Halla Þorvaldsdóttir, KR, vann Berglindi Önnu Magnúsdóttur, KR, 3-0 í leik um bronsið. Því urðu þrjár stúlkur í 2. flokki í fjórum efstu sætunum í þessum sameiginlega flokki.

Fjölmennasti flokkurinn var 2. flokkur karla. Þar sigraði Örn Þórðarson, HK, örugglega og tapaði aðeins einni lotu á mótinu, í undanúrslitum gegn Steinari Andrasyni, KR. Örn vann Eirík Loga Gunnarsson, KR, 3-0 (11-6, 13-11, 11-7) í úrslitum. Magnús Birgir Kristinsson, Víkingi, fékk bronsið.

Verðlaunahafar í meistaraflokki og 1. flokki karla.
Verðlaunahafar í meistaraflokki og 1. flokki karla.

Úrslit í einstökum flokkum:

Meistara- og 1. flokkur karla 

  1. Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, BH
  2. Faber Pennings, KR
  3. Pétur Marteinn Urbancic Tómasson, BH
  4. Óskar Agnarsson, HK

1. og 2. flokkur kvenna

  1. Lára Ívarsdóttir, KR
  2. Agnes Brynjarsdóttir, Víkingur
  3. Hildur Halla Þorvaldsdóttir, KR
  4. Berglind Anna Magnúsdóttir, KR

2. flokkur karla

  1. Örn Þórðarson, HK
  2. Eiríkur Logi Gunnarsson, KR
  3. Magnús Birgir Kristinsson, Víkingur
  4. Steinar Andrason, KR 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert