Bjarnarmenn fyrstir til að vinna meistarana

Björninn varð í kvöld fyrsta liðið til þess að vinna ...
Björninn varð í kvöld fyrsta liðið til þess að vinna SA á tímabilinu. mbl.is/Golli

Björninn varð í kvöld fyrst liða til að vinna SA í Hertz-deild karla í íshokkíi er liðin mættust í Egilshöll. Lokatölur urðu 3:2, Birninum í vil. 

Leikurinn fór hægt af stað og var staðan eftir fyrsta leikhluta markalaus. Ólafur Björnsson skoraði hins vegar fyrsta markið á 34. mínútu og kom Birninum yfir. Ingþór Árnason bætti við öðru marki fimm mínútum síðar og var staðan fyrir þriðja og síðasta leikhlutann 2:0.

Ólafur Björnsson bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Bjarnarins á 49. mínútu og staðan vænleg fyrir heimamenn. Jordan Steger minnkaði muninn á 53. mínútu og Thomas Stuart-Dant breytti stöðunni í 3:2, rúmri mínútu fyrir leikslok. Nær komst SA hins vegar ekki. 

Þrátt fyrir tapið er SA enn í toppsæti deildarinnar með átta stig, SR er í öðru sæti með sex og Björninn í þriðja og neðsta sæti með fjögur stig. 

mbl.is