Anton og Dadó syntu sig inn á HM

Dadó Fenrir Jasminuson í Ásvallalauginni í dag, eftir að hafa …
Dadó Fenrir Jasminuson í Ásvallalauginni í dag, eftir að hafa náð HM-lágmarki. mbl.is/Árni Sæberg

Anton Sveinn McKee og Dadó Fenrir Jasminuson, báðir úr SH, syntu undir lágmarki á HM í 25 metra laug þegar þeir urðu Íslandsmeistarar hvor í sinni greininni á Íslandsmeistaramótinu í Ásvallalaug í Hafnarfirði í dag.

Anton Sveinn synti á 59,70 sekúndum þegar hann varð Íslandsmeistari í 100 metra bringusundi, en það er rúmlega hálfri sekúndu undir lágmarki fyrir HM sem fram fer í Hangzhou í Kína um miðjan desember.

Anton Sveinn McKee á ferðinni í Ásvallalaug þar sem hann …
Anton Sveinn McKee á ferðinni í Ásvallalaug þar sem hann synti sig inn á HM. mbl.is/Árni Sæberg

Dadó Fenrir synti á 22,29 sekúndum í 50 metra skriðsundi og jafnaði Íslandsmet Árna Más Árnasonar úr ÍRB sem sett var fyrir níu árum. Dadó var 18/100 úr sekúndu undir HM-lágmarkinu. Kolbeinn Hrafnkelsson úr SH fékk silfur á 23,50 sekúndum og Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson úr ÍBR brons á 24,25 sekúndum.

Uppfært: Kristinn Þórarinsson úr ÍBR varð svo Íslands­meist­ari í 200 metra fjór­sundi á 2:00,04 mín­út­um en lág­markið fyr­ir HM er 2:00,70. Alls náðu því þrír Íslendingar lágmarki fyrir HM í dag.

Patrik Viggó 16 ára Íslandsmeistari

Hinn 16 ára gamli Patrik Viggó Vilbergsson úr Breiðabliki varð Íslandsmeistari í 400 metra skriðsundi karla á 3:58,90 mínútum. Hafþór Jón Sigurðsson úr SH varð í 2. sæti á 4:07,38 og Kristófer Atli Andersen úr Breiðabliki fékk bronsið en hann synti á 4:08,48.

Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB varð Íslandsmeistari í 400 metra skriðsundi kvenna á 4:22,92 mínútum, 20/100 úr sekúndu á undan Rögnu Sigríði Ragnarsdóttur úr Breiðabliki. Brynhildur Traustadóttir úr Sundfélagi Akraness varð í 3. sæti á 4:23,41 mínútum.

Karen Mist Arngeirsdóttir úr ÍRB vann 100 mera bringusund kvenna á 1:11,02 mínútu. Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir og María Fanney Kristjánsdóttir úr SH komu næstar á eftir, á 1:12,31 og 1:12,75.

Karen Mist Arngeirsdóttir varð Íslandsmeistari í 100 metra bringusundi.
Karen Mist Arngeirsdóttir varð Íslandsmeistari í 100 metra bringusundi. mbl.is/Árni Sæberg

Í 200 metra baksundi var Eygló Ósk Gústafsdóttir ekki á meðal keppenda. Ásta Kristín Jónsdóttir úr ÍBR varð Íslandsmeistari á 2:20,59 mínútum. Stefanía Sigurþórsdóttir úr ÍRB varð í 2. sæti á 2:23,07 mínútum og Guðný Birna Sigurðardóttir úr Breiðabliki í 3. sæti á 2:25,11.

Í 200 metra baksundi karla varð Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki Íslandsmeistari á 2:02,57 mínútum. Tómas Magnússon úr ÍBR fékk silfur á 2:09,00 og Júlíus Karl Maier úr SH brons á 2:14,73.

Daði með aldursflokkamet

Anton Sveinn varð Íslandsmeistari í 100 metra bringusundi eins og fyrr segir en Aron Bjarki Jónsson úr SH var næstur á 1:06,80 og hinn 14 ára gamli Daði Björnsson, einnig úr SH, setti aldursflokkamet á 1:06,83 mínútu og fékk brons.

Í 200 metra flugsundi urðu Elín Kata Sigurgeirsdóttir úr Óðni og Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki Íslandsmeistarar. Elín Kata synti á 2:21,58 mínútum og Brynjólfur Óli á 2:06,33.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH varð Íslandsmeistari í 50 metra skriðsundi kvenna á 25,63 sekúndum. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH varð 24/100 úr sekúndu á eftir henni og fékk silfur, og Katarína Róbertsdóttir, einnig úr SH, fékk brons á 26,49 sekúndum.

Elín Kata Sigurgeirsdóttir synti hraðast í 200 metra flugsundi.
Elín Kata Sigurgeirsdóttir synti hraðast í 200 metra flugsundi. mbl.is/Árni Sæberg

Í 200 metra fjórsundi urðu María Fanney Kristjánsdóttir úr SH og Kristinn Þórarinsson úr ÍBR Íslandsmeistarar. María Fanney synti á 2:19,81 en Elín Kata Sigurgeirsdóttir og Þura Snorradóttir úr Óðni komu næstar á eftir, á 2:26,19 og 2:28,68. Patrik Viggó var næstur á eftir Kristni á 2:09,30 mínútum og Hólmsteinn Skorri fékk bronsið á 2:09,91.

Keppni á Íslandsmeistaramótinu heldur áfram á morgun en mótinu lýkur á sunnudagskvöld. Mótið fer fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði og hér má sjá nákvæma dagskrá mótsins.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir bætti Íslandsmeistaratitli í safnið.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir bætti Íslandsmeistaratitli í safnið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert