Sóley með Norðurlandamet - Viktor í 8. sæti á HM

Viktor Samúelsson.
Viktor Samúelsson.

Viktor Samúelsson varð í dag í 8. sæti í sínum þyngdarflokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fram fer í Halmstad í Svíþjóð. Sautján keppendur tóku þátt í flokknum.

Viktor, sem keppir í -120 kg flokki, lyfti samtals 995 kg en hann hefur best náð 1.010 kg í keppni. Viktor lyfti 382,5 kg í hnébeygju og var í 6. sæti í henni, og hann lyfti 307,5 kg í bekkpressu og varð í 4. sæti. Í réttstöðulyftunni gekk honum ekki eins vel en Viktor lyfti þar 305 kg og varð í 13. sæti. Hann reyndi einnig við 315 og 322,5 kg en án árangurs.

Úkraínumaðurinn Oleksiy Bychkov varð heimsmeistari í flokki Viktors en hann lyfti samtals 1.115 kg. Hann vann bæði bekkpressu og réttstöðulyftu, og varð í 2. sæti í hnébeygju.

Sóley Margrét Jónsdóttir, 17 ára, keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti, í +84 kg flokki og varð í 5. sæti af fimm keppendum. Hún lyfti samtals 565 kg en það er nýtt Norðurlandamet í flokki U18 ára. Sóley lyfti 232,5 kg í hnébeygju, 132,5 kg í bekkpressu og 200 kg í réttstöðulyftu, en lyfta hennar í bekkpressu er jafnframt Norðurlandamet í hennar aldursflokki.

Á morgun keppir Júlían J. K. Jóhannsson sem unnið hefur til gullverðlauna í réttstöðulyftu tvö ár í röð, í +120 kg flokki. Hann vann í fyrra til bronsverðlauna í samanlagðri þyngd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert