Fjölmennt Norðurlandamót í víðavangshlaupum

Frá Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag.
Frá Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Norðurlandamótið í víðavangshlaupum fór fram í Reykjavík í dag og voru fjölmargir íslenskir keppendur í eldlínunni. Yfir 90 keppendur frá Norðurlöndunum auk Færeyja voru skráðir til leiks þar sem keppt var í fjórum flokkum.

Í kvennaflokki voru sjö íslenskir keppendur. Elín Edda Sigurðardóttir varð 16. á tímanum 31,09 mínútum, Íris Anna Skúladóttir varð 17. á 31,21 mínútum, Arndís Ýr Hafþórsdóttir var 18. á 31,50 mínútum, Helga Guðný Elíasdóttir varð 19. á 32,22 mínútum, Rannveig Oddsdóttir varð 20. á 32,40 mínútum og Anna Berglind Pálmadóttir varð 21. á 34,25 mínútum. Aníta Hinriksdóttir kláraði ekki hlaupið, en 20 keppendur af þeim 24 sem voru skráðir til leiks kláruðu. Anna Emilie Möller frá Danmörku átti besta tímann, 27,34 mínútur.

Aníta Hinriksdóttir á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag.
Aníta Hinriksdóttir á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Í karlaflokki voru sex íslenskir keppendur sem mættu. Hlynur Andrésson náði þar bestum árangri, 7. sæti á tímanum 29,26 mínútum. Guðni Páll Pálsson varð 23. á 32,27 mínútum, Þórólfur Ingi Þórsson varð 24. á 32,37 mínútum, Sæmundur Ólafsson varð 25. á 33,23 mínútum, Vignir Már Lýðsson varð 26. á 34,27 mínútum, Vilhjálmur Þór Svansson varð 27. á 35,18 mínútum. 27 af 29 keppendum sem skráðir voru til leiks kláruðu hlaupið en Amanuel Gergis frá Svíþjóð átti besta tímann, 28,55 mínútur.

Hin danska Anna Emelia Möller kemur fyrst í mark í …
Hin danska Anna Emelia Möller kemur fyrst í mark í kvennaflokki á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Í flokki Junior Women, ungkvenna, hafnaði Sara Mjöll Smáradóttir í 15. sæti á tímanum 20,02 mínútum og í 16. sæti varð Sólrún Soffía Arnardóttir á tímanum 20,50 mínútum. 16 keppendur kláruðu hlaupið af þeim 17 sem voru skráðir til leiks en Moona Korkealaakso frá Finnlandi átti besta tímann, 16,53 mínútur.

Í flokki Junior Men, ungkarla, voru fjórir íslenskir keppendur. Daði Arnarson hafnaði í 16. sæti á tímanum 22,59 mínútum, Dagbjartur Kristjánsson hafnaði í 17. sæti á 23,05 mínútum og Andri Már Hannesson hafnaði í 18. sæti á 23,55 mínútum. 18 keppendur kláruðu hlaupið af þeim 22 sem skráðir voru til leiks, en einn af þeim sem kláraði ekki var Hlynur Ólason. Häkon Stavik frá Noregi átti besta tímann, 19,57 sekúndur.

Sveit íslands rak lestina í öllum flokkum nema í kvennaflokki, þar sem sveit Færeyja rak lestina.

Frá Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag.
Frá Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert