Þriðji titill Andra í röð – Fyrsti sigur Önnu

Andri og Anna eru Íslandsmeistarar í skylmingum árið 2018.
Andri og Anna eru Íslandsmeistarar í skylmingum árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Andri Ni­kolays­son Mateev varð í dag Íslandsmeistari í skylmingum þriðja árið í röð eftir 15:7-sigur á  Gunnari Agli Ágústssyni í úrslitum í Baldurshaga í dag.

Andri náði fljótlega fínu forskoti í einvíginu og sigldi öruggum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð í höfn. Andri vann einnig sigur í junior-flokki og er hann því tvöfaldur meistari.  

Anna Margrét Ólafsdóttir varð svo Íslandsmeistari í fyrsta skipti eftir 15:12-sigur á Giedre Razgute í úrslitum. Giedre byrjaði betur en Anna komst betur inn í bardagann eftir því sem leið á og tryggði sér að lokum verðskuldaðan sigur. 

Eins og Andri varð Anna einnig meistari í junior-flokki. Anna er fædd árið 2001 og varð því 17 ára á þessu ári og Andri er árinu eldri og eru þau því afar efnileg. 

Í opna flokkinum deildu þeir Daníel Hugi Magnússon og Franklín Ernir Kristjánssson þriðja sætinu og Mekkin Elísabet Ingvarsdóttir varð þriðja í kvennaflokki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert