Fjögur af fimm nýta HM-réttinn

Eygló Ósk Gústafsdóttir hefur glímt við bakmeiðsli um nokkra hríð.
Eygló Ósk Gústafsdóttir hefur glímt við bakmeiðsli um nokkra hríð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm keppendur tryggðu sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug þegar Íslandsmeistaramótið fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði um helgina. Þau Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, Kristinn Þórarinsson, Anton Sveinn McKee og Dadó Fenrir Jasminuson gætu því öll verið á leið til Kína í næsta mánuði.

Anton Sveinn gerði sér ferð frá Bandaríkjunum, þar sem hann býr og starfar, rétt yfir helgina og tókst að ná HM-lágmarki í tveimur greinum. Hann sló níu ára gamalt Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar í 200 metra bringusundi með nokkuð afgerandi hætti, en Anton synti á 2:07,04 mínútum og bætti metið um 71/100 úr sekúndu. Hann náði einnig HM-lágmarki í 100 metra bringusundi sem hann vann á 59,70 sekúndum.

Kristinn synti undir lágmarki í þremur greinum á mótinu. Hann vann 100 metra fjórsund í gær á 54,57 sekúndum en hafði áður unnið 50 metra baksund á 24,27 sekúndum og 200 metra fjórsund á 2:00,04 mínútum.

Ingibjörg var hætt

Árangur Ingibjargar vekur einnig athygli en hún lýsti því yfir í byrjun árs að hún væri hætt keppni á stórmótum. Ingibjörg náði lágmarkinu í 50 metra baksundi sem hún synti á 27,95 sekúndum, eða 1/100 úr sekúndu undir settu viðmiði, þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert æft sund á þessu ári.

Ingibjörg verður því í hópnum sem fer til Kína en hið sama á ekki við um Eygló Ósk, eftir því sem Morgunblaðið kemst næst. Eygló varð í gær sú fimmta til að ná í HM-farseðilinn þegar hún vann 100 metra baksund í gær á 59,55 sekúndum, en hún hefur glímt við þrálát bakmeiðsli og fer ekki á HM vegna þeirra.

Nánar er fjallað um ÍM í 25 metra laug í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert