Vetrarólympíuleikar á vergangi

Þrjár borgir koma til greina sem gestgjafar Vetrarólympíuleika 2026. Ein …
Þrjár borgir koma til greina sem gestgjafar Vetrarólympíuleika 2026. Ein þeirra er Calgary í Kanada, sem einnig hélt Vetrarólympíuleikana 1988. AFP

Alþjóðaólympíunefndin hefur lagt blessun sína yfir þrjár umsóknir um að halda Vetrarólympíuleikana árið 2026. Stokkhólmur, Calgary í Kanada, og tvær borgir á Ítalíu, Mílanó og Kortína, eru í pottinum en kosið verður milli staðanna þriggja á fundi nefndarinnar í Sviss næsta sumar. Efasemdaraddir virðast þó í öllum borgunum og ekki útilokað að einhverjar dragi framboð sitt til baka.

Ólympíuumsóknin var fyrirferðarmikil í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í Stokkhólmi, sem fram fóru í september. Flokkar hægribandalagsins, sem sátu í minnihluta á síðasta kjörtímabili, voru gagnrýnir á framboðið og ítrekuðu andstöðu sína við hugmyndina í kosningabaráttunni. Það væri allt of dýrt.

38 milljarðar af skattfé

Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður borgarinnar við mótið yrði um þrír milljarðar sænskra króna, jafnvirði um 38 milljarða íslenskra. Í könnun sænska ríkisútvarpsins frá í febrúar kom fram að 53% aðspurðra litist illa á að Stokkhólmur héldi Ólympíuleikana, en 34% tóku jákvætt í það.

Eftir að oddviti hægribandalagsins tók við borgarstjóraembættinu að kosningum loknum áttu einhverjir von á því að umsóknin yrði dregin til baka en ekkert bólar á því, og var núverandi meirihluti raunar tekinn við völdum þegar Alþjóðaólympíunefndin samþykkti umsóknina í síðasta mánuði. „Ólympíudraumurinn lifir,“ sagði Richard Brisius, framkvæmdastjóri sænsku ólympíunefndarinnar, af því tilefni.

Skipuð hefur verið 25 manna sendinefnd sem ætlað er að sannfæra þá sem einhverju ráða um að Stokkhólmur og nágrenni séu hinn rétti staður fyrir leikana. Þrátt fyrir það virðist enn skorta vilyrði stjórnmálamanna fyrir umsókninni. „Það vantar skýran stuðning við að halda Vetrarólympíuleikana akkúrat núna, en allir vilja halda þá í framtíðinni,“ sagði hin nýkjörna borgarstýra Anna König Jerlmyr í viðtali við norska blaðið Aftenposten og vísaði til ársins 2026 sem „akkúrat núna“.

Charlotte Kalla er ein þeirra sem fer fyrir sendinefnd Svía. …
Charlotte Kalla er ein þeirra sem fer fyrir sendinefnd Svía. Hún hefur unnið til tvennra gullverðlauna á Vetrarólympíuleikum. Ljósmynd/Wikipedia

Framboð Ítala andvana fætt – og þó

Íþróttamálaráðherra Ítalíu hafði lýst því yfir í september að framboð ítölsku borganna, sem upphaflega voru þrjár, nyti ekki stuðnings ríkisstjórnar landsins og væri því í raun fallið um sjálft sig. Eftir stuttar en snarpar viðræður, sem lyktuðu með því að þriðju borginni, Torini, var sparkað úr framboðinu, samþykkti ríkisstjórnin þó að styðja framboðið þó svo að engar fjárhagsskuldbindingar hafi fylgt.

Virðist það þó hafa nægt Alþjóðaólympíunefndinni til að telja framboðið gilt. Nefndin hefur enda þurft að horfa á eftir þremur borgum sem dregið höfðu framboð sín til baka: Sapparo í Japan, Sion í Sviss og Graz í Austurríki. Í báðum evrópsku borgunum höfðu kjósendur þá hafnað tillögunum í atkvæðagreiðslu og ástæðan kunnugleg, verðmiðinn.

Skyldi engan undra. Talið er að Vetrarólympíuleikarnir í Vancouer 2010 hafi kostað kanadíska skattgreiðendur um 260 milljarða íslenskra króna. Inni í þeim tölum er vitaskuld ýmiss konar innviðauppbygging, svo sem bættar almenningssamgöngur og uppfærð íþróttamannvirki, sem velta má fyrir sér hvort þörf er á að móti liðnu.

Það hafa enda reynst örlög fjölmargra ólympíuþorpa að daga uppi sem yfirgefnir minnisvarðar um löngu liðinn höfðingsskap skattgreiðenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert