Fer á HM eftir áskorun í afmæli

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Flestir hefðu sjálfsagt haldið að það væri nauðsynlegt að æfa sund til þess að komast á heimsmeistaramót í sundi. Það á þó eiginlega ekki við í tilviki Ingibjargar Kristínar Jónsdóttur úr SH sem varð þrefaldur Íslandsmeistari í 25 metra laug um helgina og tryggði sér sæti á HM í Kína í næsta mánuði með því að fara 50 metra baksund á 27,95 sekúndum.

Ingibjörg Kristín er vissulega þaulreynd sundkona en í ársbyrjun lýsti hún því yfir, ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur, að hún hefði keppt á sínu síðasta stórmóti fyrir Ísland. Hún hætti að æfa sund og sneri sér að annars konar líkamsrækt, en hugsaði málið upp á nýtt eftir áskorun gesta í 25 ára afmæli sínu fyrir hálfum mánuði.

„Þetta var rosalega skemmtilegt mót. Ég ákvað það ellefu dögum fyrir mót að keppa og náði því rétt aðeins að æfa fyrir þetta. Ég er bara búin að vera að æfa í Mjölni síðan í vor og líkamlega formið var því alveg til staðar, en ég átti nú ekki von á því að komast inn á heimsmeistaramótið,“ sagði Ingibjörg Kristín létt í bragði við Morgunblaðið. En í ljósi fyrri yfirlýsinga, ætlar hún þá að nýta sér keppnisréttinn?

Held áfram í Mjölni

„Fyrst eftir að ég náði lágmarkinu var ég ekki viss um hvort ég ætti að fara á HM. Ég ræddi málið við Klaus [Jürgen Okh þjálfara] og við komumst að þeirri niðurstöðu að ég færi og myndi keppa. Þetta er því smá breyting á mínum plönum og ég veit svo sem ekki hvað gerist í framhaldinu. Ég held að ég haldi bara áfram í Mjölni og að synda eins og ég hef gert síðustu daga, svo sjáum við til hvað verður,“ segir Ingibjörg Kristín sem hefur að mestu haldið sig frá sundlauginni allt þetta ár, eins og fyrr segir.

Nánar er rætt við Ingibjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir mbl.is/ Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert