SR vann Björninn í framlengingu

Skautafélag Akureyrar og SR eru jöfn að stigum í efsta …
Skautafélag Akureyrar og SR eru jöfn að stigum í efsta sæti Hertz-deildarinnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Patrik Podsendnicek tryggði SR dýrmætan sigur gegn Birninum í framlengdum leik í Hertz-deildinni í íshokkí í kvöld en leiknum lauk með 7:6-sigri SR. SR byrjaði leikinn mun betur og var staðan 4:0 eftir fyrsta leikhluta þar sem þeir Bjarki Jóhannesson, Andri Sverrisson, Patrik Podsendnicek og Styrmir Friðriksson skoruðu mörk SR.

Miloslav Racansky skoraði fimmta mark SR í upphafi annars leikhluta en Kristers Bormanis klóraði í bakkann fyrir Björninn undir lok annars leikhluta. Miloslav Racansky kom SR í 6:1 í uppafi þriðja leikhluta en þá vöknuðu leikmenn Bjarnarins af værum blundi. Þeir skoruðu fimm mörk í röð en þar voru á ferðinni Viktor Svavarsson, Hjalti Jóhannsson, Kristers Bormanis, Ólafur Björnsson og Kristján Kristjánsson.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma því 6:6 og það var svo Patrik Podsendnicek sem skoraði sigurmark leiksins í upphafi framlengingarinnar og SR fagnaði sigri. SR jafnar þar með Skautafélag Akureyrar að stigum í efsta sæti deildarinnar en bæði lið eru með 8 stig. Skautafélag Akureyrar á leik til góða á SR en Björninn er í neðsta sætinu með 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert