Goðsögn fórnarlamb hatursglæps

Frá landsleik í rugby í Cardiff í Wales.
Frá landsleik í rugby í Cardiff í Wales. AFP

Gareth Thomas, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Wales í rugby, greinir frá því á Twitter að hann hafi orðið fyrir líkamsárás í Cardiff og fullyrðir að kynhneigð hans hafi verið ástæða árásarinnar. 

Thomas segir nokkra einstaklinga hafa ráðist á sig og má sjá áverka á honum í myndskeiði þar sem hann greinir frá árásinni. Segist hann hafa tilkynnt atvikið til lögreglu en með því sé líklegast að árásarmennirnir læri sína lexíu. Fréttaflutningur bendir til þess að árásarmennirnir hafi verið ungir að árum en lögregla hefur meðal annars haft afskipti af 16 ára pilti vegna málsins. 

Thomas er samkynhneigður og kom út úr skápnum árið 2009 en ekki eru mörg dæmi um að frægir rugby leikmenn hafi komið út úr skápnum. Vakti það mikla athygli vegna frægðar hans hans. Eins og áður segir fullyrðir hann kynhneigð sína vera ástæðu árásarinnar. 

Thomas er goðsögn í íþróttinni en hann lék meira en 100 landsleiki fyrir Wales og var leikjahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar þegar hann hætti að spila. Hann er næstmarkahæstur í sögu landsliðs Wales og þrettándi markahæsti á heimsvísu. Eftir að ferlinum lauk hefur hann starfað talsvert í sjónvarpi

Í skilaboðum sínum á Twitter segir Thomas að skilaboð sín hafi jákvæðar afleiðingar. Hann þakkar bæði lögreglunni og íbúum í Cardiff fyrir stuðninginn. Segir hann að því miður séu margir sem vilji skaða samkynhneigða en sem betur fer sé miklu fleiri sem vilji hjálpa til við að græða sárin. 

mbl.is