„Maður ýtir sér aðeins lengra“

„Þegar maður er að keppa þá ýtir maður sér alltaf aðeins lengra,“ segir Böðvar Tandri Reynisson, íþróttaþjálfari, um þrautakeppnir á borð við Nocco-áskorunina sem verður hluti af Iceland Open í Laugardalshöll 15. desember. Fimleikakonurnar Kolbrún Þöll Þorradóttir og Björk Óðinsdóttir verða einnig á meðal keppenda, þær segja áhorfendur hafa mikið að segja á mótum og geri þau mun skemmtilegri.

mbl.is heldur áfram að fylgjast með undirbúningi fyrir Iceland Open og í myndskeiðinu er rætt við þau og Benedikt Ísak Þórarinsson en mótið er þrautakeppni í anda Cross-fit, MGT og Víkingaþreks. Brautin sam­an­stend­ur af 12 æf­ing­um þar sem keppt er í að ná sem best­um tíma. Keppt verður í ein­stak­lingskeppni, para­keppni og liðakeppni.  

Skorað á iðkendur í Boot-Camp, Cross-fit, og Víkingaþreki

Í Nocco áskoruninni er lögð áhersla á að allir geti tekið þátt og greinarnar verða ekki tæknilega flóknar. Böðvar segir það vera eitt það skemmtilegasta við keppnina og þau vonast til að fá keppendur með sem fjölbreyttastan bakgrunn. Björk skorar á fólk úr Cross-fit heiminum til að taka þátt en Böðvar vill sjá fólk úr Víkingaþrekinu í Mjölni þar sem hann er þjálfari. Benedikt Ísak æfir í MGT í World Class og segir að margir þaðan muni taka þátt en vill sjá fólk úr Boot-Camp á mótinu.

Í síðustu viku var fylgst með undirbúningi fyrir BJJ-mót Mjölnis sem einnig verður hluti af Iceland Open.

mbl.is