Ísold með hæstu stig íslensks skautara

Frá verðlaunaafhendingu í dag.
Frá verðlaunaafhendingu í dag. Ljósmynd/Skautasamband íslands

Íslandsmót Skautasambandsins hófst í dag í Egilshöll við fjölmenni. Keppni hófst klukkan 10 í morgun með yngstu keppnisflokkunum, Chicks og Cubs. Ekki eru veitt verðlaun í þessum flokkum en keppendur sýndu falleg tilþrif og lögðu sig alla fram.

Í basic novice flokki keppa telpur á aldrinum 11-13 ára og voru 9 keppendur skráðir til leiks. Þar stóð Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar uppi sem sigurvegari. Eftir hlé hófst keppni í Intermediate ladies sem er flokkur sem er sífellt að stækka.

Ljósmynd/Skautasamband íslands

Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sigraði nokkuð örugglega með 36.66 stig. Önnur varð Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir frá SA með 34.41 stig og þriðja varð Sólbrún Víkingsdóttir frá Fjölni með 32.19 stig.

Síðast í þessu holli kepptu svo Intermediate novice. Þar gerði Valdís María Sigurðardóttir frá Fjölni sér lítið fyrir og gekk frá með sigur og 24.33 stig. Önnur varð Harpa Karin Hermannsdóttir, einnig frá Fjölni með 24.18 stig og þriðja varð Ólöf Thelma Arnþórsdóttir frá SR með 23.41 stig. Keppni í þessum flokki var gríðarlega jöfn og skildi rétt um 1 stig að efstu fjóra keppendurna.

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands var gerð stutt fánahylling í hléi. Fjórar stúlkur, frá hverju sínu aðildarfélagi Skautasambandsins, skautuðu með íslenska fánann inn á ísinn og þjóðsöngur Íslands var leikinn. Var þetta einkar hátíðleg stund og ekki fór framhjá neinum að einhverjir í stúkunni tóku undir með Lofsöngnum.

Ljósmynd/Skautasamband íslands

Eftir hlé og verðlaunaafhendingu hófst keppni á Íslandsmeistaramóti 2018. Þar er keppt í þremur flokkum, Advanced novice, Junior ladies og Senior ladies, en einungis eru krýndir Íslandsmeistarar í þessum flokkum. Keppnin í þessum flokkum er tvíþætt og var keppt í dag með stutt prógram. Í Advanced novice er Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir SA efst með 41.51 stig sem eru hæstu stig sem sést hafa hjá íslenskum skautara. Önnur er Rebekka Rós Ómarsdóttir SR með 27.68 stig og þriðja er Herdís Heiða Jing Guðjohnsen SR með 26.52 stig.

Í Junior ladies gengu stúlkunum einnig vel og er Marta María Jóhannsdóttir SA efst með 38.64 stig. Rétt á eftir henni er kollegi hennar hjá SA, Aldís Kara Bergsdóttir með 37.94 stig og í þriðja er Herdís Birna Hjaltalín frá Fjölni með 36.26 stig.

Í Senior ladies voru tveir keppendur að þessu sinni. Staðan eftir daginn er að Margrét Sól Torfadóttir SR er fyrst með 33.54 stig og í öðru er Eva Sögg Sæmundsdóttir frá Fjölni með 29.91 stig.

Keppni heldur svo áfram á morgun í þessum flokkum klukkan 12 í Egilshöll. Þá verður keppt með frjálst prógram og nýir Íslandsmeistara krýndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert