SR vann Björninn í fimmta sinn

Robbie Sigurðsson átti stóran þátt í sigri SR en hann ...
Robbie Sigurðsson átti stóran þátt í sigri SR en hann skoraði þrennu. Hér er hann með pökkinn í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Skautafélag Reykjavíkur lenti 2:0 undir í rimmu sinni við Björninn í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld en fagnaði að lokum sigri, 6:4. Robbie Sigurðsson skoraði þrennu.

SR hefur þar með unnið alla fimm leiki sína við Björninn í vetur, þar af aðeins einn ekki í venjulegum leiktíma. SR er með 15 stig eftir 9 leiki en Björninn með 5 stig eftir 8 leiki. SA Víkingar eru hins vegar á toppnum með 16 stig eftir 7 leiki.

Andri Már Helgason og Edmunds Induss komu Birninum í 2:0 á fyrstu níu mínútum leiksins í kvöld en Egill Þormóðsson minnkaði muninn fyrir SR í 1. lotu. Kristers Bormanis kom Birninum í 3:1 en Robbie Sigurðsson minnkaði muninn og Patrik Podsednicek jafnaði metin á lokasekúndum 2. lotu.

Enn komst Björninn yfir, snemma í síðustu lotu, 4:3, með marki Kristjáns Kristinssonar, en Robbie jafnaði metin og Ómar Söndruson kom SR yfir þegar sjö og hálf mínúta var eftir. Robbie innsiglaði svo sigurinn með sínu þriðja marki undir lokin.

mbl.is