Hlynur keppir á Evrópumótinu

Hlynur Andrésson.
Hlynur Andrésson. Ljósmynd/Scott W. Grau

ÍR-ingurinn Hlynur Andrésson verður fulltrúi Íslendinga á Evrópumótinu í víðavangshlaupi sem fram fer í Tilburg í Hollandi á sunnudaginn.

Mótið í ár verður það stærsta frá upphafi en 590 keppendur eru skráðir til leiks frá 58 löndum. Hlynur hefur átt frábært ár þar sem hann bætti meðal annars Íslandsmetið í 10 km hlaupi og varð fyrsti Íslendingurinn til að hlaupa 5 km undir 14 mínútum. Hann varð svo sjöundi á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupi sem fór fram hér á landi í síðasta mánuði.

Á meðal keppenda á Evrópumótinu verða norsku Ingebrigtsen-bræðurnir. Þeir eru allir þrír meðal bestu langhlaupara í Evrópu og stal sá yngsti senunni í sumar þegar hann varð Evrópumeistari fullorðinna í 1.500 og 5.000 metra hlaupi aðeins 18 ára gamall.

mbl.is