Ísland tapaði fyrsta leik 5:0

Kári Gunnarsson og félagar í íslenska landsliðinu mæta Sviss á …
Kári Gunnarsson og félagar í íslenska landsliðinu mæta Sviss á morgun og Portúgal á sunnudag. mbl.is/Golli

Íslenska landsliðið í badminton mátti sín lítils gegn Hollandi í fyrsta leik sínum í forkeppni Evrópumeistaramóts landsliða í Portúgal. Ísland tapaði leiknum 5:0.

Liðin leika í riðli með Portúgal og Sviss og kemst aðeins efsta liðið áfram á EM í Kaupmannahöfn í febrúar á næsta ári.

Hollendingar eru sigurstranglegasta þjóðin í riðlinum enda í 18. sæti heimslistans en Ísland er í 48. sæti, Sviss í 46. sæti og Portúgal í 50. sæti. Því má búast við jafnari leikjum um helgina hjá íslenska liðinu.

Kári Gunnarsson gerði sínum andstæðingi erfitt fyrir í fyrri lotunni sem spiluð var í einliðaleik karla en tapaði 21:18 og 21:10, gegn Joran Kweekel. Arna Karen Jóhannsdóttir tapaði einliðaleik kvenna, 21:6 og 21:7. Í tvenndarleik léku Kristófer Darri Finnsson og Margrét Jóhannsdóttir saman en þau töpuðu 21:7 og 21:17. Margrét og Sigríður Árnadóttir léku saman í tvíliðaleik kvenna og töpuðu 21:10 og 21:15, og í tvíliðaleik karla töpuðu þeir Kristófer Darri og Davíð Bjarni Björnsson 21:10 og 21:11.

Ísland mætir næst Sviss á morgun og Portúgal á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert