River Plate meistari eftir dramatík

Enzo Pérez hjá River Plate fagnar af innlifun.
Enzo Pérez hjá River Plate fagnar af innlifun. AFP

Síðari leikur argentínsku erkifjendanna í River Plate og Boca Juniors í meist­ara­keppni félagsliða í fótbolta í Suður-Am­er­íku fór loks fram á Santiago Bernabéu-leikvanginum í Madríd í kvöld. Svo fór að River Plate hafði betur, 3:1 og tryggði sér Suður-Ameríkumeistaratitilinn. 

Staðan eftir fyrri leikinn var 2:2, en fresta þurfti síðari leiknum nokkrum sinnum vegna óláta stuðningsmanna. Ekki var hægt að leika leikinn á heimavelli River Plate og var hann því færður til Madrídar. 

Boca Juniors byrjaði betur og Darío Benedetto skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 44. mínútu. Lucas Pratto jafnaði á 68. mínútu og var ekki meira skorað í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. 

Snemma í framlengingunni fékk Wilmar Barrios í liði Boca Juniors sitt annað gula spjald og þar með rautt. River Plate-menn nýttu sér liðsmuninn og Juan Quintero skoraði annað mark þeirra á 109. mínútu. 

Fernando Gago hjá Boca þurfti síðan að fara af vell vegna meiðsla undir blálokin og var liðið búið með skiptingarnar sínar. Boca-menn léku því tveimur mönnum færi á lokakaflanum. Gonzalo Martínez innsiglaði 3:1-sigur River með marki í uppbótartíma síðari hálfleiks framlengingarinnar og þar við sat. 

mbl.is