Langar að sjá hvað í mér býr

Anton Sveinn McKee fagnar einum af fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum sínum síðasta …
Anton Sveinn McKee fagnar einum af fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum sínum síðasta vor. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Anton Sveinn McKee var í raun búinn að setja keppnissundskýluna ofan í skúffu og tilbúinn að láta gott heita eftir að hafa farið á sína aðra Ólympíuleika í Ríó árið 2016. Nú er hann mættur ásamt þremur öðrum íslenskum keppendum á heimsmeistaramótið í 25 metra laug í Hangzhou í Kína.

Anton stingur sér til sunds í 100 metra bringusundi í fyrramálið, eða í nótt að íslenskum tíma, og Kristinn Þórarinsson keppir einnig í nótt, í 200 metra fjórsundi. Dadó Fenrir Jasminuson og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir keppa einnig á mótinu en dagskrá íslenska liðsins má sjá hér.

Anton hefur um árabil verið fremsti sundmaður Íslands og fór á sína fyrstu Ólympíuleika í London árið 2012. Í Ríó fyrir rúmum tveimur árum var hann afar nálægt því að komast í undanúrslit en hafnaði í 18. sæti í 200 metra bringusundi. Eftir hálfgert óvissutímabil í kjölfarið á því stefnir þessi tæplega 25 ára gamli kappi hátt, meðal annars á Ólympíuleikana í Tókíó 2020.

Fjarþjálfunin í Boston virkar vel

„Eftir síðustu Ólympíuleika kláraði ég síðustu önnina mína í háskólanum og var því áfram að synda um sinn,“ segir Anton við mbl.is, en hann stundaði nám og synti fyrir lið háskólans í Alabama í Bandaríkjunum. „Þegar náminu lauk þá var ég eiginlega ekkert búinn að ákveða framhaldið. Ég flutti til Boston og var þá að byrja í nýrri vinnu, og vildi einbeita mér alveg að þeim kafla í lífinu. Þegar ég var svo kominn aðeins af stað í þeirri vinnu þá sá ég að mig langaði til þess að halda áfram í sundinu, og hef því sinnt því með fullri vinnu síðan,“ segir Anton, sem þarf enn meira en flest annað sundfólk að treysta á sjálfan sig við æfingarnar í Boston:

Anton Sveinn fór á sína fyrstu Ólympíuleika árið 2012 en …
Anton Sveinn fór á sína fyrstu Ólympíuleika árið 2012 en þá voru löng skriðsund hans sérsvið. mbl.is/Golli

„Ég er í raun í fjarþjálfun. Ég geri sundæfingar sem ég fæ frá þjálfara mínum í háskólanum, og svo fæ ég lyftingaáætlun frá þjálfara mínum í Hafnarfirði. Þetta virðist vera að virka. Í sumar kom það skemmtilega á óvart að ég bætti mig í 50 metra laug, því maður hefur ekki náð að æfa jafnmikið og maður gæti vegna vinnu. Ég virðist enn þá vera að bæta mig og er spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Anton, og tekur undir að það kosti mikinn aga að vera ekki að æfa með liðsfélögum eins og í Alabama eða íslenska landsliðinu:

„Jú, vissulega, og það koma oft dagar þar sem maður nær ekki að fylgja planinu 100 prósent. En það er að sama skapi þægilegt að hafa sveigjanleika. Ef að það er mikið að gera í vinnunni getur maður æft minna, en þegar það koma dagar þar sem er minna að gera þá getur maður bætt við æfingum. Ég reyni bara að gera eins vel og ég get úr þessu.“

Sló 9 ára Íslandsmet óhvíldur eftir ferðalag

Anton kveðst enn eiga mikið inni sem sundmaður og hann hefur líka sýnt það á þessu ári, til að mynda þegar hann sló 9 ára gamalt Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar í nóvember. Anton varð þá Íslandsmeistari í 200 metra bringusundi í 25 metra laug á 2:07,04 mínútum, nánast nýkominn úr flugi frá Bandaríkjunum:

„Það er hálffyndið. Það er alltaf skrýtið að koma heim og vera að fara að keppa sama morgun og maður lendir. En það er ákveðið stuð í því,“ segir Anton hlæjandi, en hann hefur fengið betri tíma til að jafna sig eftir ferðalagið til Kína:

„Jú, vissulega er þetta langt ferðalag en maður gat planað þetta vel og við erum öll í góðu stuði hérna og vongóð um að ná góðum árangri. Hérna lítur allt rosalega vel út. Ég er mjög spenntur, eftir að hafa komið heim og átt gott Íslandsmeistaramót þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert hvílt mig fyrir það mót. Ég hlakka rosalega til,“ segir Anton.

Anton Sveinn McKee verður í eldlínunni á HM í Kína …
Anton Sveinn McKee verður í eldlínunni á HM í Kína á morgun, föstudag og laugardag. mbl.is/Golli

Ætlar á þriðju Ólympíuleikana

Eins og fyrr segir ætlar Anton að einbeita sér að sundíþróttinni að minnsta kosti næstu tvö árin, og hann tekur undir að kannski sé einn þáttur í því að hann sé enn að bæta sig sú staðreynd að framan af ferlinum einbeitti hann sér að lengri skriðsundum. Fyrir ÓL í Ríó hafði hann skipt um kúrs og lagt alla áherslu á 100 og 200 metra bringusund:

„Það má vel vera að það hjálpi mér að hafa ekki verið lengur en þetta í bringusundinu. Ég þarf að beita öðruvísi þjálfunaraðferðum og eyða meiri tíma í lyftingaherberginu, ná upp meiri krafti sem skilar sér betur því eldri sem maður verður. Ég held að grunnurinn sem maður hafði úr langsundinu, sífellt meiri reynsla úr bringusundinu og aukinn kraftur, ég held að þetta sé allt að smella saman núna,“ segir Anton, og bætir við:

„Eins og planið er núna hjá mér þá vil ég keyra á fullu fram yfir næstu Ólympíuleika. Eftir það er hægt að taka stöðuna og sjá hvort eitthvert vit sé í því að halda áfram lengur. Ég veit að ég á inni frekari bætingar, sérstaklega í löngu lauginni, og mig langar að sjá hvað í mér býr á stóru sviði eins og Ólympíuleikunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert