Valinn númer 199 - sló met í deildinni

Tom Brady í leiknum gegn Miami Dolphins í gær.
Tom Brady í leiknum gegn Miami Dolphins í gær. AFP

Goðsögnin Tom Brady sló í gær met í NFL-deildinni í ameríska fótboltanum og á nú flestar stoðsendingar sem leitt hafa til snertimarks í sögu deildarinnar. Brady er orðinn 41 árs gamall og leikur eins og áður með New England Patriots. 

Brady gaf þrjár slíkar sendingar í 34:33 tapi fyrir Miami Dolphins og eru sendingarnar alls orðnar 582. Næstur er Peyton Manning með 579 en hann hætti að spila árið 2015. Ef einungis er horft til leikja á venjulegu tímabili og ekki taldir með leikir í úrslitakeppninni þá hefur Manning enn vinninginn. 

Brady á ýmis met og hefur fimm sinnum orðið NFL-meistari. Sá eini sem hefur afrekað það með einu liði. Hann er almennt talinn einn besti leikstjórnandi allra tíma enda ferillinn glæsilegur. Brady hefur þrívegis verið valinn besti leikmaður deildarinnar. 

Ferill Toms Brady er áminning um að lið þurfa ekki endilega að eiga fyrstu valréttina í háskólavalinu til að taka ákvarðanir sem geta gerbreytt framtíð liðanna í bandarísku hópíþróttunum þar sem notast er við val á leikmönnum úr háskólum. Brady var ekki valinn fyrr en í 6. umferð í nýliðavalinu árið 2000 eða númer 199. Hóf hann feril sinn í deildinni sem leikstjórnandi númer fjögur hjá New England en það átti eftir að breytast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert