Þróttur og Afturelding skiptust á sigrum

Þróttur Neskaupstað vann dramatískan sigur á Aftueldingu.
Þróttur Neskaupstað vann dramatískan sigur á Aftueldingu. Ljósmynd/Þróttur Neskaupstað

HK vann góðan 3:0-útisigur á Álftanesi í Mizuno-deild karla í blaki í gær. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en um miðja fyrstu hrinu komst HK í 14:8 og að lokum unnu HK-ingar hrinuna og komust í 25:21. 

Heimamenn byrjuðu betur í annarri hrinu, en eftir því sem leið á hrinuna náði HK völdum og urðu lokatölur 25:19 og staðan orðin 2:0. HK vann svo þriðju hrinuna afar sannfærandi, 25:10 og leikinn í leiðinni.

Theódór Óskar Þorvaldsson í liði HK var stigahæstur með 14 stig. Gunnar Pálmi Hannesson skoraði 9 fyrir Álftanes. Þrátt fyrir úrslitin er Álftanes enn í öðru sæti deildarinnar með tólf stig, einu stigi meira en HK sem er í sætinu fyrir neðan. 

Í Neskaupstað unnu heimamenn í Þrótti 3:2-sigur á Aftureldingu eftir afar spennandi leik. Gestirnir í Aftureldingu byrjuðu betur og komust í 1:0 með 25:23-sigri í fyrstu hrinu. Heimamenn voru hins vegar mun sterkari í annarri hrinu og jöfnuðu leikinn með 25:19-sigri. 

Afturelding svaraði hins vegar fyrir sér og komst aftur yfir með 25:16-sigri í þriðju hrinunni. Þróttur Neskaupstað gafst hins vegar ekki upp því staðan varð 2:2 eftir 25:23-sigur heimamanna í fjórðu hrinu. Heimamenn unnu svo oddahrinuna 15:11 og leikinn því 3:2. Radoslaw Rybak skoraði 29 stig fyrir Aftureldingu og Miguel Ramos gerði 22 fyrir Þrótt. 

Afturelding er í fjórða sæti deildarinnar með fimm stig og Þróttur sæti neðar með tvö stig. 

Þriðji sigur Aftureldingar

Í Mizuno-deild kvenna fékk Þróttur Neskaupstað einnig heimsókn frá Aftureldingu og þar voru gestirnir sterkari. Leikurinn var jafn framan af en að lokum fór Afturelding með 3:1-sigur af hólmi. 

Afturelding byrjaði betur og komst í 1:0 með 25:19-sigri í fyrstu hrinu. Þróttur svaraði með 25.22-sigri í annarri hrinu, en Afturelding var sterkari í næstu tveimur hrinum. Eftir mikla baráttu í þriðju hrinu vann Afturelding 25:23 og svo 25:17 í fjórðu hrinunni. 

Velina Apostolova skoraði 24 stig fyrir Aftureldingu og Karen Björg Gunnarsdóttir gerði 17 stig. Tinna Rut Þórarinsdóttir skoraði 13 stig fyrir Þrótt. Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar með 13 stig og Afturelding í sjötta sæti með átta stig. 

Afturelding vann góðan útisigur á Þrótti.
Afturelding vann góðan útisigur á Þrótti. Ljósmynd/Þróttur Neskaupstað
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert