„Ég er orðin Sara aftur“

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er spennt fyrir komandi keppnisári.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er spennt fyrir komandi keppnisári. Ljósmynd/CrossFit

„Þetta er örugglega búið að vera erfiðasta ár sem ég hef upplifað,“ segir Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, afrekskona í crossfit. Í upphafi árs var hún að jafna sig eftir rifbeinsbrot sem hún hlaut í nóvember í fyrra en var staðráðin í að koma tvíefld til baka í ár og það tókst þegar hún tryggði sér keppnisrétt á sínum fjórðu heimsleikum í crossfit í röð. Sara, eins og hún er gjarnan kölluð, hefur tvisvar sinnum lent í 3. sæti á leikunum og einu sinni í 4. sæti og var hún staðráðin í að gera gott betur en það í ár.

„Mesta martröð í heimi var að ég myndi brjóta mig aftur á heimsleikunum,“ segir Sara í samtali við mbl.is og það er einmitt það sem gerðist. Strax á fyrsta keppnisdegi leikanna í sumar fann hún fyr­ir óþæg­ind­um í rif­bein­um í maraþonróðrin­um svo­kallaða þar sem kepp­end­ur þurftu að ljúka 42 kíló­metr­um á róðrar­vél. Hún hélt hins vegar ótrauð áfram á öðrum og þriðja keppnisdegi en dró sig úr keppni á fjórða og næstsíðasta keppnisdeginum.

Besta tilfinning í heimi að komast aftur á gólfið

Þegar blaðamaður náði tali af Söru rétt fyrir jól var hún nýkomin heim af sínu fyrsta móti eftir meiðslin, The Dubai Crossfit Championship, sem markar upphaf nýs keppnistímabils í crossfit-heiminum og er hluti af nýju fyrirkomulagi fyrir undankeppni heimsleikanna þar sem sextán mót skera úr um hverjir komast á leikana. Sara viðurkennir að hún sé búin að ganga í gegnum erfiða tíma og að hún hafi verið stressuð en á sama tíma spennt að keppa á ný.

„Það var ótrúleg tilfinning að koma út á gólfið, sérstaklega þar sem ég braut mig á fyrsta keppnisdegi á heimsleikunum en keppti í fjóra daga. Þannig að ég var á gólfinu, en þetta var ekki ég á gólfinu. Þetta var ótrúlega skrýtin tilfinning, eins og ég væri að horfa á sjálfa mig vera að keppa en ég gat ekki gert neitt. En að komast á gólfið og vera ég sjálf aftur var besta tilfinning í heimi,“ segir Sara.

Fyrsta sæti á mótinu í Dúbaí tryggði keppnisrétt á heimsleikunum næsta sumar. Sara hafnaði í þriðja sæti og er mjög sátt með þann árangur. Hún hefur ótal tækifæri í viðbót til að tryggja sér sæti á leikunum. „Þetta mót var aðallega hugsað til að koma mér aftur í gírinn og sjá hvar ég stend. Ég kom sjálfri mér mjög mikið á óvart, ég gerði helling af mistökum, klaufamistökum, en það er gott að vita að ég er komin á góðan stað aftur,“ segir hún.

Sara hefur fjórum sinnum keppt á heims­leikunum í crossfit og …
Sara hefur fjórum sinnum keppt á heims­leikunum í crossfit og tvisvar lent í 3. sæti. Ljósmynd/CrossFit

„Enn þá fast í hausnum á mér að ég væri aumingi“

Sara segir að um leið og hún hafi náð tökum á stressinu hafi henni liðið vel, eina sem þurfti til að var að hefja keppni. „Þá bara allt í einu hugsaði ég: Vá, ég er orðin Sara aftur, mér leið aldrei eins og ég væri ég sjálf að keppa á heimsleikunum af því að ég var meidd og ég vildi ekki viðurkenna að ég væri meidd því maður er búinn að undirbúa sig allt árið undir þetta. Ég vildi ekki nota rifbeinsbrotið sem afsökun, það var enn þá fast í hausnum á mér að ég væri aumingi en um leið og ég fór á gólfið núna fattaði ég að það var út af rifbeininu sem ég náði ekki að beita mér. Maður er svo klikkaður,“ segir hún og hlær.  

Hingað til hefur leið Söru á heimleikana legið í gegnum Evrópuleikana, þar sem hraustustu crossfit-iðkendur Evrópu etja kappi, en nú er leiðin fjölbreyttari þar sem sextán undankeppnir verða haldnar víðs vegar í heiminum fram að leikunum. Ekki eru takmörk sett á hversu mörgum mótum hver keppandi má taka þátt.  

Aðspurð hvernig henni líst á nýja fyrirkomulagið segir Sara að við fyrstu sýn virðist það vera betra. „Þetta gefur manni fleiri möguleika til að njóta sín yfir árið. Við getum planað árið eftir því sem hentar okkur í stað þess að hafa einhverja ákveðna dagsetningu, eins og var á Evrópuleikunum, til að toppa okkur. Ég myndi segja að þetta væri betra.“

Sara setur hins vegar spurningarmerki við hversu faglegt hvert mót er. „Í Dúbaí var til dæmis bara einhver sheikh sem ákvað allar æfingarnar og fimm mínútum fyrir æfingu gat hann breytt henni ef hann vildi. Maður er því pínu hræddur um að þetta verði ekki eins faglegt og það ætti að vera. En hvort að það verði bara fyrsta árið og svo muni það breytast verður bara að koma í ljós.“

Sara á Evrópuleikunum í ár. Undankeppnin í ár verður með …
Sara á Evrópuleikunum í ár. Undankeppnin í ár verður með breyttu sniði sem leggst vel í Söru. Ljósmynd/Bára Ósk

Keppir við hraustustu konu heims í janúar

Næsta undankeppni sem Sara setur stefnuna á er Wodapalooza sem fer fram í Miami í Flórída í janúar. Tia Clair Toomey sem sigraði á heimsleikunum í fyrra, og er því hraustasta kona í heimi, verður einnig á meðal keppenda. „Mig langar að sjá hversu langt ég er frá henni. Ég er ekkert að gera mér miklar vonir um að vinna en ég mun auðvitað gera allt sem ég get. Það verður gaman að sjá hvar ég stend þar og hvað ég þarf að bæta fyrir heimsleikana, ég er aðallega að hugsa um að vera í mínu allra besta formi á heimsleikunum og þessi litlu mót fram að þeim eru til að sjá hvar ég stend og hvað ég þurfi að gera til komast á þá.“

Ein af sextán undankeppnum verður haldin hér á landi í maí, Reykjavík CrossFit Championship, og búast má við mörgum af stærstu stjörnum crossfit-heimsins á mótið. Sjálf er Sara hins vegar búin að skrá sig til leiks í annarri undankeppni, The Rogue Invitational, sem fer fram í Ohio nokkrum dögum síðar. Tíminn er því líklega of knappur til að taka þátt á báðum mótunum. „Ég var búin að fá boð á Rouge-mótið áður en ég vissi af mótinu á Íslandi, það hefði verið gaman að keppa á því líka.“

Mótin eru haldin ansi þétt svo keppendur þurfa að vanda valið en á sama tíma fagna crossfit-aðdáendur um heim allan þar sem von er á mikilli veislu fyrir þá sem hafa gaman af að fylgjast með íþróttinni.

„Það var ótrúleg tilfinning að koma út á gólfið, sérstaklega …
„Það var ótrúleg tilfinning að koma út á gólfið, sérstaklega þar sem ég braut mig á fyrsta keppnisdegi á heimsleikunum en keppti í fjóra daga,“ segir Sara, sem keppti fyrr í þessum mánuði á sínu fyrsta móti eftir rifbeinsbrotið sem tók sig upp á leikunum í sumar. Ljósmynd/CrossFit

Orðin íþróttamaður aftur

Sara segist skilja sátt við árið 2018, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. „Eftir mótið í Dúbaí líður mér eins og ég sé orðin íþróttamaður aftur,“ segir hún. Að ganga í gegnum erfið meiðsli eins og rifbeinsbrotið kenndi Söru einnig ýmislegt. „Það er eitthvað gott búið að koma út úr þessu líka. Þegar ég brotnaði ákvað ég að ég þyrfti að finna mér annað verkefni þannig að ég skráði mig í skóla.“ Sara stundar nú nám í sálfræði í fjarnámi. „Ég var í sálfræði á Íslandi en prófin voru alltaf á sama tíma og helstu mótin voru en fjarnámið hentar mér miklu betur þar sem ég fæ skipulagið ár fram í tímann.“

Hún býr og æfir á Íslandi og hefur opnað sína eigin crossfit-stöð sem hún nefndi í höfuðið á föður sínum: Simmagym. Það kemur sér vel að eiga eigin líkamsræktaraðstöðu þegar æfingarnar eru jafn margar og hjá Söru, sérstaklega um jólin þegar opnunartími er almennt skemmri. Sara segist einmitt æfa mjög mikið yfir hátíðirnar.

„Á aðfangadag æfi ég eiginlega allan daginn til að vinna fyrir matnum. Svo borða ég á mig gat. Og fer í kjól. Það er alltaf regla hjá mér á jólunum að ég þarf að vera í flottum kjól,“ segir Sara, spurð um jólahefðir. Á því var engin breyting í ár líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Sara birti á Instagram í gær. 

Sara horfir björtum augum til framtíðar og hlakkar til að takast á við verkefni næsta árs. „Ég ætla að komast aftur sama stað og ég var og ef ekki betri stað. Keppa mikið og njóta. Og ekki brotna. Það er kannski helsta markmiðið,“ segir hún og hlær.

mbl.is