Belgar ekki í vandræðum

Erla Rán Eiríksdóttir slær boltann í leiknum í Digranesi í …
Erla Rán Eiríksdóttir slær boltann í leiknum í Digranesi í dag. mbl.is/Hari

Íslenska kvennalandsliðið í blaki lauk keppni í undanriðli Evrópumóts kvenna 2019 rétt í þessu þegar það mætti Belgum í Digranesi í Kópavogi.

Belgar, sem eru með eitt af bestu liðum Evrópu og höfðu þegar tryggt sér sigur í riðlinum með fullu húsi stiga, unnu auðveldan 3:0 sigur, en hrinurnar enduðu 25:4, 25:7 og 25:6. Hrinurnar tóku 16-17 mínútur hver fyrir sig og leikurinn í heild aðeins 50 mínútur.

Ísland lauk því keppni án stiga en Belgar fengu 18 stig af 18 mögulegum. Slóvenía og Ísrael eru að slást í kvöld um annað sætið í lokaleik riðilsins þar sem í ljós kemur hvort liðanna kemst í lokakeppnina, sem fer fram í Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tyrklandi í haust.

Karlalandslið Íslands leikur í kvöld sinn síðasta leik í undankeppni EM en það tekur á móti Slóvakíu í Digranesi klukkan 20.

mbl.is