Stóðu vel í Slóvökum

Bjarki Benediktsson reynir að koma boltanum yfir hávörn Slóvakanna í …
Bjarki Benediktsson reynir að koma boltanum yfir hávörn Slóvakanna í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Karlalandslið Íslands veitti Slóvökum harða keppni í lokaumferð undanriðils Evrópukeppninnar í blaki karla en liðin mættust í Digranesi í kvöld. Slóvakar knúðu að lokum fram 3:0 sigur en þurftu að hafa fyrir því.

Slóvakar unnu þar með riðilinn og fengu 15 stig í sex leikjum en þeir voru þegar búnir að tryggja sér sæti í lokakeppni EM. Ísland endaði í neðsta sæti riðilsins, án stiga í leikjunum sex. Svartfjallaland vann Moldóvu, 3:0, í kvöld, fékk 13 stig og fylgir Slóvakíu á EM en Moldóva fékk 8 stig í þriðja sætinu.

Slóvakar unnu fyrstu hrinuna 25:18 og aðra hrinu með sama mun, 25:18, en í bæði skiptin eftir talsverða mótspyrnu. Í þriðju hrinunni var síðan um enn jafnari leik að ræða allan tímann og Ísland var yfir framan af. Á lokasprettinum vantaði herslumuninn hjá íslenska liðinu og Slóvakar unnu 25:20.

mbl.is