Spennandi að fá að spila á heimavelli

Jussi Sipponen er á hliðarlínunni hjá U20 ára landsliðinu.
Jussi Sipponen er á hliðarlínunni hjá U20 ára landsliðinu. Ljósmynd/Stefán Örn

„Við erum búnir að bíða lengi eftir þessu,“ sagði landsliðsþjálfarinn Jussi Sipponen í samtali við mbl.is, en hann er á leið með Ísland á heimsmeistaramót U20 ára landsliða í íshokkí. Ekki þarf hann þó að fara langt, því mótið fer að þessu sinni fram í Skautahöllinni í Laugardal 14.-20. janúar.

„Það eru allir spenntir fyrir því að geta spilað á heimavelli og spila fyrir framan vini og fjölskyldu í stúkunni. Það mun vonandi gefa strákunum mikið. Það er ekki oft sem landsliðin spila heima,“ sagði Sipponen.

Ísland er í riðli með Ástralíu, Taívan og Tyrklandi og verður fyrsti leikur Íslendinga gegn Áströlum á mánudaginn. Sipponen, sem hefur marga fjöruna sopið á svellinu bæði í heimalandinu Finnlandi og hér á landi, er ánægður með hópinn sem hann er með í höndunum.

„Ég fékk alla sem ég vildi fá í verkefnið, það er enginn meiddur eða neitt slíkt. Ég held að þetta sé besta liðið sem við getum stillt fram á ísnum,“ sagði hann en bendir á að erfitt sé að vita mikið um andstæðingana.

„Ég veit aðeins um hin liðin. En það er erfitt að læra mikið inn á þessi unglingalandslið. Leikmenn verða of gamlir á milli ára og liðin þurfa þá að taka inn fullt af nýliðum. Svo lið sem voru sterk á síðasta móti geta verið veikari nú, og svo öfugt. Það er það sama með okkur. Ég held að við höfum misst hátt í tíu leikmenn bara því þeir voru orðnir of gamlir til þess að spila með okkur. Þannig að við erum með nokkuð nýtt lið, eins og aðrar þjóðir,“ sagði Sipponen.

Nýtt fyrirkomulag hentar vel

Alls verða spilaðir fimm leikir á sjö dögum og hvað markmið varðar er Sipponen með einfalda hugmyndafræði.

„Eina sem við stefnum að er að fara í alla leiki með það að markmiði að vinna þá. Mun það gerast? Ég veit það ekki. En þetta er það sem við stefnum að,“ sagði Sipponen, en bendir á að keppnisfyrirkomulagið er með nokkuð öðru móti í ár. Það henti betur.

Tekin var upp riðlakeppni í þessari 3. deild og tveimur þátttökuþjóðum bætt við. Átta lið munu keppa í tveimur riðlum og að þeim leikjum loknum fara fram undanúrslit og úrslitaleikur, ásamt leikjum um sæti fimm til átta. Breytingin er því sú að sigurliðið í umspilinu fer upp í B-riðil 2. deildar en ekki sigurliðið í einfaldri umferð í sex liða 3. deild.

„Þú mátt þess vegna við því að tapa leik en samt geturðu unnið mótið, ef þú bara endar á að verða í fyrsta eða öðru sæti í riðlinum. Þú þarft því að vinna réttu leikina,“ sagði Sipponen.

Jussi Sipponen er mikill drifkraftur í íslensku íshokkíi og er …
Jussi Sipponen er mikill drifkraftur í íslensku íshokkíi og er spilandi þjálfari SA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Bjartsýnn fyrir komandi ár

Sipponen er eins og áður segir frá Finnlandi en hefur verið búsettur á Akureyri síðustu ár. Hann hef­ur verið áber­andi í ís­lensku ís­hokkíi und­an­far­in ár, jafnt inn­an vall­ar sem utan, og þjálfað bæði karla- og kvennalið SA. Þá var hann landsliðsþjálf­ari kvenna­ í tvö ár.

Hvernig finnst honum íþróttin vera að þróast á Íslandi?

„Ungir strákar hafa í auknum mæli farið utan og ég held að það sé gott fyrir hokkíið á Íslandi. Fleiri eru að fara til dæmis til Svíþjóðar og Norður-Ameríku. Þeir læra mikið og kynnast annarri hokkímenningu,“ sagði Sipponen og er bjartsýnn hvað framtíðina varðar.

„Þetta er það sem ég vil gera, þróa unga leikmenn og sjá þá fara áfram. Þetta tekur allt tíma, en ég sé að það eru margir spennandi ungir leikmenn sem eiga eftir að koma fram á sjónarsviðið,“ sagði Jussi Sipponen við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert