Sögulegur sigur Hilmars í heimsbikarnum

Hilmar Snær Örvarsson efstur á verðlaunapalli í dag.
Hilmar Snær Örvarsson efstur á verðlaunapalli í dag. Ljósmynd/Íþróttasamband fatlaðra

Hilmar Snær Örvarsson varð í dag fyrstur Íslendinga til þess að vinna sigur á heimsbikarmótaröð fatlaðra í alpagreinum, en Hilmar er við keppni í Zagreb þar sem heimsbikarmótið í svigi fer fram.

Hilmar var annar eftir fyrri ferðina í dag á tímanum 1:00,27 mínútum, 1,52 sekúndum á eftir þeim sem var með besta tímann. Í seinni ferðinni var tími Hilmars 1:01,44 mínútur og þegar allir höfðu lokið sér af var ljóst að Hilmar var samanlagt 1,20 sekúndum fljótari en næsti maður og stóð því uppi sem sigurvegari.

Hilmar keppir strax aftur á morgun, en ef flett er fram á 52. mínútu í myndbandinu HÉR  má sjá seinni ferð Hilmars í dag.

Þótt Hilm­ar sé ein­ung­is á 19. ald­ursári hef­ur hann þegar öðlast reynslu af keppni á stór­móti því hann keppti á Vetr­ar-Para­lympics í Suður-Kór­eu í fyrra og var raun­ar fána­beri Íslands á leik­un­um. Þar keppti hann einnig í svigi og stór­svigi en Hilm­ar kepp­ir í flokki aflimaðra. 

Hilmar Snær Örvarsson.
Hilmar Snær Örvarsson. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert