Þær bestu settu mótsmet

Aníta Hinriksdóttir glaðbeitt í Laugardalshöllinni um helgina.
Aníta Hinriksdóttir glaðbeitt í Laugardalshöllinni um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aníta Hinriksdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, fremstu hlaupakonur Íslands í dag, settu báðar mótsmet á Stórmóti ÍR í Laugardalshöll í gær.

Guðbjörg kom fyrst í mark í 200 metra hlaupi er hún hljóp á 24,09 sekúndum. Tíminn er sá besti innanhúss hjá Guðbjörgu, en hún var 0,4 sekúndum frá Íslandsmeti Silju Úlfarsdóttur. Guðbjörg, sem átti algjört draumaár í fyrra, sagðist í samtali við Morgunblaðið staðráðin í að bæta Íslandsmet Silju á árinu, en Guðbjörg á Íslandsmetið utanhúss. Þórdís Eva Steinsdóttir varð önnur á 24,59 sekúndum, sem er hennar besti árangur innanhúss. Guðbjörg kom einnig fyrst í mark í 60 metra hlaupi á 7,58 sekúndum.

Aníta hljóp 800 metra á 2:05,98 mínútum og var með mikla yfirburði, eins og við mátti búast. Tíminn er nokkuð frá besta tíma Anítu, en hún var að hlaupa í fyrsta skipti síðan í ágúst. „Fyrsta hlaup ársins er gott til að ná skrekknum og stressinu úr sér, svo ég verði tilbúnari fyrir næstu hlaup. Ég verð meira á heimavelli í næstu hlaupum. Mér leið ágætlega þangað til ég sá tímann eftir fyrsta hring og átti mig á því hversu hægt hlaupið var. Tíminn var ekki góður,“ sagði Aníta við Morgunblaðið eftir hlaupið.

Íslandsmethafinn í langstökki, Hafdís Sigurðardóttir, gerði ógilt í fyrstu tveimur stökkum sínum í langstökki kvenna. Hún örvænti hins vegar ekki og stökk lengst 6,49 metra, sem er nýtt mótsmet. Hafdís er að nálgast sitt besta form og var hún aðeins fimm sentímetrum frá sínum besta árangri innanhúss. Hafdís varð Íslandsmeistari síðasta sumar, einu ári eftir að hún eignaðist barn. 

Nánar er fjallað um mótið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Hafdís Sigurðardóttir býr sig undir keppni um helgina.
Hafdís Sigurðardóttir býr sig undir keppni um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert