Fimm lið eftir í HM-slagnum

Fabian Wiede fagnar fyrir Þjóðverja gegn Króötum í gær.
Fabian Wiede fagnar fyrir Þjóðverja gegn Króötum í gær. AFP

Þjóðunum sem geta hreppt heimsmeistaratitil karla í handknattleik fækkaði niður í fimm í gærkvöld þegar Króatar og Spánverjar heltust úr lestinni í milliriðli Íslands í Köln.

Króatar biðu lægri hlut fyrir Þjóðverjum í æsispennandi leik, 21:22, þar sem umdeildur ruðningsdómur á Króata einni mínútu fyrir leikslok vó þungt.

Þessi úrslit tryggðu Frökkum jafnframt sæti í undanúrslitunum og gerðu út um vonir Spánverja, en þeir síðarnefndu þurftu að treysta á að Þjóðverjar töpuðu að minnsta kosti stigi til Króata til að eiga von fyrir lokaumferðina. Eins hefðu Króatar komist í hreinan úrslitaleik gegn Frökkum, hefðu þeir gert jafntefli við Þjóðverja.

Þjóðverjar og Frakkar eru jafnir fyrir lokaumferðina og endi liðin jöfn að stigum ræður markatala úrslitum um hvort þeirra hreppir efsta sætið og leik gegn liðinu í öðru sæti hins riðilsins, líklegast Svíum eða Norðmönnum. Þjóðverjar standa þar betur að vígi en þeir eru fimm mörkum fyrir ofan Frakka fyrir leikina annað kvöld. Þá leika Þjóðverjar við Spánverja og Frakkar við Króata.

Örvhenta skyttan Fabian Wiede átti stórleik með Þjóðverjum og skoraði sex mörk úr jafnmörgum skotum. Manuel Strlek og Igor Karacic gerðu 4 mörk hvor fyrir Króata sem nú sjá gríðarlega eftir stigunum sem þeir misstu til Brasilíumanna á sunnudagskvöldið.

Brasilía gæti enn náð fjórða sætinu af Króatíu og spilað um 7.-8. sætið, með því að vinna Ísland á morgun, ef Króatar tapa fyrir Frökkum og Spánverjar taka stig af Þjóðverjum.

Ítarlega umfjöllun um heimsmeistaramótið í handknattleik má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert