Hilmar Snær hársbreidd frá bronsi

Hilmar Snær Örvarsson.
Hilmar Snær Örvarsson. mbl.is/Hari

Hilmar Snær Örvarsson var hársbreidd frá því að vinna til bronsverðlauna í svigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum sem fram fer í Slóveníu.

Hilmar keppti í dag og var fimmti eftir fyrri ferðina á tímanum 57,42 sekúndum. Í seinni ferðinni bætti hann sig um rúma sekúndu, fór niður brautina á 56,11 sekúndum, og tími hans var því samanlagður 1:53,53 sekúndur. Það skilaði honum fjórða sæti.

Frakkinn Arthur Bauchet vann gullið, Svisslendingurinn Thomas Pfyl landaði silfri og Ástralinn Mitchell Bourley varð þriðji, en Hilmar var aðeins 28/100 úr sekúndu frá Bourley og bronsinu. Hilmar keppti í stórsvigi í fyrradag og varð þá í 20. sæti.

Hilmar hóf ferðina á heimsbikarmóti í Zagreb í Króatíu þar sem hann vann til gullverðlauna í svigi og varð þar með fyrstur Íslendinga til að vinna sigur á heimsbikarmóti í sögunni. Á HM náði hann besta árangri sem íþróttamaður úr röðum fatlaðra á Íslandi hefur náð á heimsmeistaramóti í alpagreinum.

mbl.is