Kom í veg fyrir tékkneskan úrslitaleik

Naomi Osaka fagnar sætinu í úrslitum.
Naomi Osaka fagnar sætinu í úrslitum. AFP

Þær Naomi Osaka frá Japan og Petra Kvitova frá Tékklandi munu mætast í úrslitum einliðaleiks kvenna á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, fyrsta risamóti ársins.

Þetta var ljóst í morgun eftir að Osaka vann Karolinu Pliskovu, 62:4:6, 6:4, í undanúrslitum og kom þar með í veg fyrir tékkneskan úrslitaleik á milli Kvitovu og Pliskovu. Þetta er annað risamótið í röð sem Osaka kemst í úrslitaleikinn, en hún stóð uppi sem sigurvegari á Opna bandaríska meistaramótinu í fyrra.

Kvitova komst í úrslitaleikinn með sigri á Denielle Collins, 7:6, 6:0, en úrslitin verða spiluð á sunnudag. Þetta er í fyrsta sinn sem Kvitova kemst í úrslit risamóts síðan hún var stungin með hnífi í ráni í desember 2016. Var í kjölfarið óttast um feril hennar.

Petra Kvitova.
Petra Kvitova. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert