Söguleg tíðindi sama hvernig fer

Novak Djokovic umkringdur aðdáendum.
Novak Djokovic umkringdur aðdáendum. AFP

Það eru stórviðburðir á dagskrá í Melbourne um helgina þegar úrslitin ráðast á fyrsta risamóti ársins, Opna ástralska meistaramótinu í tennis. Þrátt fyrir að íþróttin hafi ekki haslað sér mikinn völl hér á landi kviknar oft áhugi í kringum risamótin fjögur.

Í ár ætti að vera sérstök ástæða til, þar sem sagan verður skrifuð jafnt í karla- og kvennaflokki – alveg sama hvernig úrslitin í einliðaleik fara.

Það þarf ekki að hafa fylgst mikið með íþróttinni til þess að hrífast með sögu hinnar tékknesku Petru Kvitovu, sem mætir Naomi Osaka frá Japan í úrslitum einliðaleiks kvenna á morgun. Kvitová er að spila til úrslita í fyrsta sinn síðan hún var rænd og stungin eftir innbrot á heimili hennar í desember 2016. Kvitová, sem er örvhent, varð fyrir taugaskemmdum á vinstri hendi þegar hún reyndi að verja sig fyrir árásarmanninum. Hún þurfti í langa aðgerð og óttast var að ferli hennar væri lokið. Sjálf þakkaði hún fyrir að vera á lífi eftir atvikið.

Kvitová hefur talað um að ferillinn hafi endað við árásina og nýr hafi hafist þegar hún fékk tækifæri til þess að spila á ný. Það að komast í úrslit á risamóti aðeins tveimur árum eftir að hafa verið illa farin bæði líkamlega og andlega er magnað afrek. Hún vann tvo risatitla á „fyrri“ ferli sínum eftir sigur á Wimbledon-mótinu 2011 og 2014, og hefur aldrei tapað í úrslitum risamóts.

Það hefur andstæðingur Kvitovu í úrslitaleiknum á morgun, Naomi Osaka, ekki heldur gert. Hún er fyrsti Japaninn sem kemst í úrslit á Opna ástralska meistaramótinu, en hennar eini sigur á risamóti kom raunar á síðasta móti ársins 2018. Þá vann hún Serenu Williams í úrslitum Opna bandaríska meistaramótsins.

Hvort sem það verður Kvitová eða Osaka verður nýtt nafn skrifað á bikarinn í Melbourne á morgun. Sú sem tapar mun hins vegar þurfa að upplifa sitt fyrsta tap í úrslitaleik risamóts.

Naomi Osaka og Petra Kvitová mætast í úrslitaleik.
Naomi Osaka og Petra Kvitová mætast í úrslitaleik. AFP

Berjast um fyrirsagnirnar 

Það er ekki síður söguleg viðureign á sunnudag þegar tveir af þremur bestu tennisspilurum síðasta áratuginn eða svo, Serbinn Novak Djokovic og Spánverjinn Rafael Nadal, mætast í úrslitum einliðaleiks karla.

Þetta er merkileg viðureign fyrir margar sakir, ekki síst vegna þess að þeir eru að mætast í 25. sinn í úrslitaleik ef tekið er víðara mengi en risamótin inn í dæmið. Áður hafði Nadal mætt Svisslendingnum Roger Federer í alls 24 úrslitaleikjum. Þeir munu því hafa skapað hatrömmustu rimmu tennisheimsins eftir viðureignina á sunnudag.

Það má segja sem svo að þeir Djokovic og Nadal muni berjast um meira en bara sigurlaunin í Melbourne. Báðir munu þeir komast á spjöld sögunnar með sigri.

Djokovic er ásamt Roger Federer sigursælasti leikmaður allra tíma á Opna ástralska meistaramótinu eftir að hafa unnið það sex sinnum. Þá hefur enginn unnið það oftar í röð síðan núverandi fyrirkomulag risamóta var tekið upp árið 1968, en Djokovic vann þrjú ár í röð frá 2011-2013.

Vinni Djokovic sinn sjöunda titil á sunnudag verður hann sá sigursælasti í sögunni á þessu móti. Hann kemst þá upp fyrir Federer og Roy Emerson, sem vann mótið sex sinnum fyrir 1968. Það yrði hans 15. risatitill, sem kæmi honum í þriðja sæti yfir flesta risatitla í sögunni. Federer trónir þar á toppnum með 20 titla.

Rafael Nadal og Novak Djokovic mætast í úrslitum.
Rafael Nadal og Novak Djokovic mætast í úrslitum. AFP

Það er svo Rafael Nadal sem er í öðru sæti yfir flesta risatitla í sögunni, en hann getur unnið sinn 18. á sunnudag. Það sem yrði hins vegar merkilegast er að hann myndi afreka nokkuð sem enginn annar hefur afrekað frá upphafi – að vinna öll risamótin fjögur í það minnsta tvisvar sinnum.

Nadal hefur verið í sérflokki á Opna franska meistaramótinu og unnið það 11 sinnum. Þrisvar hefur hann unnið Opna bandaríska meistaramótið og Wimbledon-mótið tvisvar. Hann á þó aðeins einn titil að baki í Ástralíu, árið 2009, þrátt fyrir að vera nú að spila í fimmta sinn til úrslita.

Það má því heldur betur búast við hörkuviðureign þeirra á milli og eins og Djokovic sagði sjálfur eftir sigur gegn Lucas Pouille í undanúrslitum – „Ég myndi kaupa miða á úrslitaleikinn.“

Frá Opna ástralska meistaramótinu í tennis.
Frá Opna ástralska meistaramótinu í tennis. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert