Getur orðið sá sigursælasti

Tom Brady.
Tom Brady. AFP

Tom Brady, leikstjórnandinn sigursæli, getur sett met ef vel gengur hjá honum og samherjum hans í New England Patriots í Ofurskálarleiknum (Super Bowl) 3. febrúar. New England mætir þá Los Angeles Rams í úrslitum NFL-deildar ameríska fótboltans.

Brady hefur átt sérlega glæsilegan feril en hann er fæddur í ágúst árið 1977 og hefur verið hjá New England allar götur síðan um árþúsundamótin eða allan sinn feril. Brady hefur fimm sinnum orðið NFL-meistari með liðinu og deilir því meti ásamt Charles Haley sem sigraði tvisvar með San Francicsco 49ers og þrívegis með Dallas Cowboys. Brady er því í „dauðafæri“ til að setja nýtt met þótt auðvitað sé kálið ekki sopið þótt í ausuna sé komið.

Er hlaðinn metum

Brady á fleiri eftirsóknarverð met sem tengjast úrslitaleik NFL-deildarinnar. Enginn hefur jafn oft verið valinn maður leiksins þegar kemur að Ofurskálarleikjunum. Fjórum sinnum hefur honum hlotnast sá heiður. Er hann einnig sá leikmaður sem oftast hefur komist í úrslitaleikinn eða tíu sinnum.

Tom Brady er leikstjórnandi, eins og NFL-unnendur þekkja, en sá sem leikur þá stöðu er potturinn og pannan í sókninni. Enginn leikstjórnandi hefur jafn oft verið í byrjunarliðinu í úrslitaleiknum eða átta sinnum og níunda skiptið er þá framundan verði kappinn ekki fyrir óhappi. Þau fimm skipti sem Brady varð NFL-meistari byrjaði hann ávallt inni á og er það einnig skráð sem sérstakt met.

Brady er elsti leikstjórnandi sem verið hefur í byrjunarliði í úrslitaleiknum en í fyrra var hann 40 ára og 185 daga gamall þegar New England tapaði fyrir Philadelphia Eagles. Mun hann að óbreyttu bæta það met frekar en mun ekki ná því að verða elsti leikmaður til að spila úrslitaleikinn. Er það met í eigu Matt Stover sem var sparkari hjá Indianapolis Colts árið 2010, þá 42 ára og 11 daga.

Auk þess á Tom Brady fjöldann allan af metum sem tengjast sendingum í úrslitaleikjum NFL. Hefur hann til að mynda gefið alls átján sendingar sem leitt hafa til snertimarks í Ofurskálarleikjunum.

Sjá alla greinina um Brady í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »