Brons hjá Vonn í síðustu ferðinni

Lindsey Vonn endaði í þriðja sæti í bruni á heimsmeistaramótinu …
Lindsey Vonn endaði í þriðja sæti í bruni á heimsmeistaramótinu í Åre í Svíþjóð. AFP

Skíðakonan Lindsey Vonn hafnaði í þriðja sæti í bruni á heimsmeistaramótinu í alpagreinum sem fram fer í Åre í Svíþjóð þessa dagana en Vonn skíðaði á 1:2,23 mínútum og var 0,49 sekúndum á eftir Ilku Stuhec sem hafnaði í fyrsta sæti.

Þetta var síðasta brunkeppnin hjá Vonn sem hefur ákveðið að leggja skíðin á hilluna vegna þrálátra meiðsla undanfarin ár. „Þetta var hrikalega gaman og ég hef aldrei verið jafn stressuð í keppni á ævi minni. Markmiðið var að ná góðri ferð og njóta þess að koma í mark og það tókst,“ sagði Vonn í samtali við BBC í dag.

Vonn hefur nú unnið til sex verðlauna á heimsmeistaramóti í alpagreinum og er hún fyrsta konan til þess að afreka það. Vonn á 82 heimsbikarsigra að baki, fjórum sigrum minna en sænska skíðagoðsögnin Ingemar Stenmark sem vann 86 heimsbikarsigra á ferlinum.

mbl.is