Hafdís í öðru sæti á NM

Hafdís Sigurðardóttir stökk lengst 6,34 metra sem skilaði henni öðru …
Hafdís Sigurðardóttir stökk lengst 6,34 metra sem skilaði henni öðru sætinu á Norðurlandamótinu. mbl.is/Eggert

Langstökkvarinn Hafdís Sigurðardóttir hafnaði í öðru sæti á Norðurlandamótinu innanhúss í frjálsum íþróttum, sem fram fór í Bærum í Noregi um helgina, í langstökki kvenna en mótinu lauk í dag. Hafdís stökk lengst 6,34 metra sem er talsvert frá hennar besta árangri í ár sem er 6,49 metrar. Taika Koilathi frá Finnlandi stökk lengst allra eða 6,38 metra.

Aníta Hinriksdóttir hafnaði í fjórða sæti í 800 metra hlaupi en hún hljóp á tímanum 2:01,18 mínútum. Þórdís Eva Steinsdóttir tók þátt í 400 metra hlaupi og hljóp á tímanum 55,78 sekúndur sem skilaði henni fimmta sæti á mótinu.

Kormákur Ari Hafliðason tók einnig þátt í 400 metra hlaupi og bætti sinn besta árangur en hann hljóp á tímanum 48,55 sekúndur og hafnaði Kormákur í sjötta sæti. Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafnaði í áttunda sæti í 200 metra hlaupi en Guðbjörg hljóp á tímanum 24,19 sekúndur.

Þá tók María Rún Gunnlaugsdóttir þátt í hástökki og gerði María sér lítið fyrir og bætti sinn besta árangur. María stökk yfir 1,75 metra og hafnaði í sjötta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert