„Líður eins og fólk stari á mig“

Naomi Osaka vann Opna ástralska í síðasta mánuði en tapaði ...
Naomi Osaka vann Opna ástralska í síðasta mánuði en tapaði svo óvænt í 2. umferð í Dúbaí. AFP

Japanska tennisstjarnan Naomi Osaka segir fréttaflutning og gagnrýni síðustu daga hafa haft sitt að segja um að hún tapaði óvænt fyrsta leik sínum eftir að hún komst í efsta sæti heimslistans.

Osaka, sem er 21 árs og ríkjandi sigurvegari Opna ástralska og Opna bandaríska mótsins, tapaði 6:3 og 6:3 fyrir hinni frönsku Kristinu Mladenovic í 2. umferð Dubai Tennis-meistaramótsins.

Osaka stendur á ákveðnum tímamótum, ekki bara vegna þess að hún er komin í efsta sæti heimslistans eftir að hafa verið í 72. sæti fyrir rúmu ári. Hún ákvað nefnilega að hætta samstarfi sínu við þjálfarann Sascha Bajin sem hafði einmitt þjálfað hana síðasta árið. Osaka útskýrði ákvörðun sína með því að stundum þyrfti að taka hamingjuna fram yfir árangur. Þetta hefði ekkert að gera með peninga eins og allir virtust halda, heldur hefði sambandið verið orðið stirt eins og flestir ættu að hafa séð á Opna ástralska, sagði Osaka. Hún viðurkennir að sér hafi ekki tekist að hundsa viðbrögð fjölmiðla og tennisáhugafólks við þessu:

„Ég gat það ekki og þessi úrslit [tapið gegn Mladeonvic] eru þar af leiðandi niðurstaðan. Ég er nokkuð viss um að eftir því sem tíminn líður munið þið hætta að tala um þetta. Í augnablikinu er þetta stærsta tennisfréttin býst ég við. Þetta er svolítið erfitt því mér líður eins og fólk stari á mig, og ekki á góðan hátt,“ sagði Osaka við fréttamenn eftir tapið.

Mladenovic var í 67. sæti heimslistans fyrir sigurinn á Osaka og hafði ekki unnið tennisleik á þessu ári fyrir mótið í Dúbaí.

Naomi Osaka smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigurinn á Opna ...
Naomi Osaka smellir kossi á verðlaunagripinn eftir sigurinn á Opna ástralska í síðasta mánuði. AFP
Þjóðverjinn Sascha Bajin (2. frá vinstri í fremstu röð) hefur ...
Þjóðverjinn Sascha Bajin (2. frá vinstri í fremstu röð) hefur þjálfað sumar af bestu tenniskonum heims. AFP
mbl.is