EM-farinn verður með

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (lengs til hægri) í keppni á Reykajvíkurleikunum …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (lengs til hægri) í keppni á Reykajvíkurleikunum á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag og á morgun fer fram Meistaramót Íslands innanhúss í frjálsíþróttum. Mótið fer fram í Kaplakrika og hefst á riðlakeppni í 60 metra hlaupi klukkan 11.

Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður samankomið og mun keppa um 24 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Síðasta grein mótsins, 4×400 metra boðhlaup, verður á morgun og þar er spennan yfirleitt mjög mikil. Alls eru 169 keppendur skráðir til leiks frá 14 félögum.

Meðal keppenda verða Hafdís Sigurðardóttir, Íslandsmethafi í langstökki, sem í fyrradag öðlaðist þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu sem haldið verður í Glasgow um næstu helgi. Hafdís keppir í spretthlaupum og einnig langstökki en í þeirri grein hefur hún höggvið nærri Íslandsmeti á síðustu vikum.

Einnig verður hin efnilega Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á sprettinum á mótinu. Ekki er útilokað að hún höggvi nærri Íslandsmeti Silju Úlfarsdóttur í 200 m hlaupi.

María Rún Gunnlaugsdóttir, sem varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut um síðustu helgi, mun einnig taka þátt í nokkrum greinum.

Hástökkvararnir Kristján Viggó Sigfinnsson og Benjamín Jóhann Johnsen munu reyna fyrir sér í hástökki en báðir hafa þeir stokkið yfir tvo metra.

Einnig má reikna með einvígi í langstökki þar sem Kristinn Torfason, Ísak Óli Traustason og Einar Daði Lárusson munu m.a. reyna með sér svo fátt eitt sé nefnt sem verður í boði í Kaplakrika.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert